Björgunaraðgerðir gætu tekið 2 mánuði

Stjórnvöld í Suður-Kóreu segja að það gæti tekið margar vikur, jafnvel tvo mánuði, að ná upp á yfirborðið líkum allra þeirra sem létust þegar ferja sökk í Gulahafið á miðvikudag. Staðfest er að 36 eru látnir en 270 er saknað.

Ólíklegt er talið að einhver sé enn á lífi en það hefur þó ekki verið útilokað. Súrefni hefur verið dælt inn í ferjuna á hafsbotni og ákveðið hefur verið að reyna ekki að hífa ferjuna upp með krana fyrr en gengið hefur verið úr skugga um að þar sé enginn enn á lífi.

Kafarar sáu þrjú lík í skipinu á hafsbotni í dag, en náðu ekki til þeirra í fyrstu tilraun. Aðstæður eru sagðar afar erfiðar, skyggni lítið og hafstraumar sterkir. Skömmu fyrir miðnætti var kafað niður aftur, rúða brotin og líkin dregin út. Þau voru öll í björgunarvestum.

Skipstjóri ferjunnar, hinn 69 ára gamli Lee Joon-seok, var handtekinn í dag ásamt tveimur öðrum úr áhöfn. Hann kann að verða ákærður fyrir vanrækslu skyldustarfa og fyrir brot á hafréttarlögum.

Það liðu tvær klukkustundir frá því ferjunni hvolfdi, eftir snarpa beygju, og þar til hún var öll sokkin. Skipstjórinn skipaði farþegum, sem flestir voru börn á gagnfræðaskólaaldri, að halda kyrru fyrir, að eigin sögn vegna þess að það var mikil ölduhæð og engin skip nálægt. 

Unglingarnir um borð hringdu margir hverjir í foreldra sína áður en ferjan sökk, sendu jafnvel myndir úr farsímum sínum þaðan sem þau voru föst inni í ferjunni.

Sjá einnig: Skipstjórinn biðst afsökunar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert