Boðar byltingu hugarfarsins

Reuters

„Hin fullkomna bylting er bylting hugarfarsins,“ segir hugsjónakonan Aung San Suu Kyi, leiðtogi Lýðræðishreyfingarinnar í Búrma. Barátta hennar fyrir lýðræðisumbótum í heimalandi sínu undanfarin 25 ár hefur vakið heimsathygli. Þrátt fyrir að hafa verið haldið langdvölum í stofufangelsi lætur hún ekki deigan síga og heldur baráttu sinni ótrauð áfram. 

Tvö ár eru síðan hún var kosin á búrmenska þingið í fyrsta sinn, en hún stefnir hærra. Forsetakosningar fara fram á næsta ári og hefur Suu, eins og hún er yfirleitt kölluð, lýst yfir áhuga á að bjóða sig fram. Ef marka má vinsældir hennar í Búrma, þar sem henni er yfirleitt tekið sem rokkstjörnu hvar sem hún fer, þá er næsta víst að hún verði næsti forseti landsins.

Hins vegar er nauðsynlegt að gera breytingar á stjórnarskránni til að hún geti boðið sig fram. Stjórnvöld í Búrma hafa, undir vökulum augum alþjóðasamfélagsins, tekið lítil skref í átt til lýðræðisumbóta á undanförnum árum en óvíst er hvort vilji þeirra standi til þess að breyta stjórnarskránni. Það verður tíminn einn að leiða í ljós. 

Hér verður stiklað á stóru og sagt frá langvinnri baráttu Suu fyrir mannréttindum.

Dóttir sjálfstæðishetju

Aung San Suu Kyi fæddist í Rangoon, fyrrum höfuðborg Búrma, þann 19. júní árið 1945. Hún er dóttir Aung San, sjálfstæðishetju landsins. Það var hann sem leiddi þjóðina til sjálfstæðis frá bæði Bretum og Japönum í seinni heimsstyrjöldinni, en hann var hins vegar myrtur árið 1947, þegar Suu var aðeins tveggja ára gömul. Þau fegðin hafa alla tíð síðan verið frelsistákn þjóðarinnar. 

Suu var aðeins sautján ára þegar hershöfðinginn Ne Win rændi völdum í landinu. Hann varð yfirmaður hersins árið 1955 og fór þá fyrst að safna til sín völdum. Því má segja að íbúar Búrma hafi aðeins fengið að lifa við lýðræði í átján ár, frá seinni heimsstyrjöldinni og þar til Ne Win tók öll völd í sínar hendur.

Búrma er ríkt af náttúruauðlindum og var um tíma þriðji stærsti úflytjandi hrígrjóna í heiminum. Það leið hins vegar ekki á löngu þar til landið var komið í hóp fátækustu ríkja heims. Efnahagsstefna herforingjastjórnarinnar, sem byggðist að miklu leyti á hefðbundnum áætlunarbúskap, beið algjört skipbrot.

Móðir Suu, Khin Kyi, var sendiherra Búrma á Indlandi og bjuggu þær mægður í borginni Nýju-Delhí þar í landi. Suu stundaði nám í stjórnmálafræði við háskólann í Delhí en lagði síðan leið sína til Bretlands þar sem hún lauk prófum í heimspeki, stjórnmálafræði og hagfræði frá hinum virta Oxford-háskóla. Þar kynntist hún einmitt Michael Aris, sérfræðingi í tíbeskum fræðum, en þau giftust árið 1972 og áttu saman tvo drengi, Alexander og Kim.

Stofnaði Lýðræðishreyfinguna

Árið 1988 sneri Suu heim til Búrma til að hjúkra sjúkri móður sinni. Sama ár tók hún tók af fullum krafti þátt í uppreisn námsmanna, en um þær mundir breiddist alda mótmæla um borgina. Hinn 8. ágúst flykktust mótmælendur út á götur í stærstu borgum landsins og kröfðust lýðræðisumbóta. Þessir atburðir hafa verið kallaðir „8888 uppreisnin“.

Á fjölmennum fundi við hina frægu Shwedagon-pagóðu í Rangoon sagðist Suu „ekki geta, sem dóttir Aung San, staðið á sama um allt það sem er að gerast“. Hún varð fljótlega tákn lýðræðisumbótaafla í landinu og stofnaði Lýðræðishreyfinguna, sem varð á undraskömmum tíma langsterkasti stjórnarandstöðuflokkur landsins.

En rétt fyrir miðnætti þann 8. ágúst, þegar mótmæli námsmanna stóðu sem hæst, létu hersveitir herforingjastjórnarinnar loks til skarar skríða og hófu skothríð á mannfjöldann. Talið er að hersveitirnar hafi myrt í það minnsta þrjú þúsund manns á næstu dögum, en í árslok 1988 var fjöldinn kominn upp í tíu þúsund. Þá voru tugir þúsunda fangelsaðir, pyntaðir og hraktir á flótta frá Búrma.

Í jarðarför móður sinnar árið 1989 strengdi Suu þess heit að halda ávallt áfram að berjast fyrir mannréttindum íbúa Búrma, alveg fram á síðasta dag, rétt eins og móðir sín og faðir. Hún myndi ekki gefast upp þótt á móti blæsi.

Suu þykir hafa sýnt mikla stjórnunarhæfileika með því að halda saman ansi sundurleitum hópi mótmælenda og sameina stjórnandstöðuna undir merkjum mannréttinda í Lýðræðishreyfingunni.

Stórsigur í kosningunum 1990

Þrátt fyrir að herinn hafi þjarmað að Suu og meðal annars meinað henni að bjóða sig fram í þingskosningunum árið 1990, þá lét hún sér ekki segjast, eða að minnsta kosti ekki fyrr en hún var sett í algjöra einangrun í janúarmánuði sama ár.

Það fór svo að Lýðræðishreyfingin vann stórsigur í kosningunum og tryggði sér 82% þingsæta. Úrslitin voru valdhöfunum mikið áfall. Þeir viðurkenndu þau aftur á móti ekki, heldur sögðu að útlendingar og kommúnistar hefðu bruggað launráð gegn þeim. Á næstu vikum voru hundruðir flokksfélaga Lýðræðishreyfingarinnar handteknir og settir í fangelsi.

Um miðjan október árið 1991 var greint frá því að Aung San Suu Kyi hefði hlotið friðarverðlaun Nóbels. „Barátta Suu Kyi er eitt óvenjulegasta dæmi um borgaralegt hugrekki í Asíu síðustu áratugi,“ sagði í greinargerð nóbelsnefndarinnar.

Sonur hennar, Alexander Aris, sem var þá átján ára, tók við verðlaununum í Osló fyrir hönd móður sinnar. Herforingjastjórnin bauð Suu að fara til Noregs og veita verðlaununum viðtöku, en með því skilyrði að hún mætti ekki snúa aftur til Búrma. Það vildi hún ekki. 

Bylting hugarfarsins

Sama ár kom út greinasafn hennar undir nafninu „Frelsi frá ótta“. Greinarnar varpa ljósi á hugsjónir Suu en ein ritgerðin birtist í Morgunblaðinu þann 10. júlí 1991. Þar segir Suu meðal annars:

„Hin fullkomna bylting er bylting hugarfarsins, sprottin af vitsmunalegri sannfæringu um nauðsyn breytinga á þeim gildum og hugsunarhætti sem ráða ferðinni í þroska þjóðar. Bylting sem einvörðungu beinist að því að breyta stjórnarathöfnum og hlutverki einstakra stofnana innan þjóðfélagsins, með það fyrir augum að bæta efnislega velferð, á litla möguleika á því að ná raunverulegum árangri.

Án byltingar hugarfarsins munu þau öfl sem sköpuðu ranglæti hins gamla skipulags að einhverju leyti verða áfram við lýði og standa í vegi sannra umbóta og nýmyndunar. Það er á hinn bóginn ekki nóg að krefjast frelsis, lýðræðis og mannréttinda. Að baki slíkri kröfu þarf að búa saeminuð staðfesta til að halda út baráttuna, að færa fórnir í nafni sannleikans, að forðast þá spillingu sem hlýst af ágirnd, hatri, fáfræði og ótta.“

Rithöfundurinn Jakob F. Ásgeirsson þýddi ritgerðina en þess má geta að hann skrifaði jafnframt bók um lýðræðisbaráttu Suu sem kom út árið 2009.

Áföll og sorgir

Suu var loks sleppt úr stofufangelsinu árið 1995 með því skilyrði að hún mætti ekki yfirgefa Rangoon.

Í janúar 1999 bárust þær fregnir að Michael Aris, eiginmaður hennar, hefði greinst með krabbamein í blöðruhálskirtli. Það varð hans banamein. Michael hafði ekki fengið að heimsækja Suu frá því árið 1995 og engu breytti þótt hann hafði greinst með krabbamein. Herforingjarnir neituðu honum um vegabréfsáritun. Suu neitaði tilboði stjórnvalda um að yfirgefa Búrma, vitandi það að henni myndi ekki vera hleypt aftur inn.

Ári síðar vildi Suu láta á það reyna hvort hún kæmist út fyrir höfuðborgina, Rangoon. Það gekk ekki sem skyldi. Hún var handtekin á lestarstöðinni og við tók tveggja ára stofufangelsi. Athygli vakti hins vegar að á þeim tíma þegar hún var handtekin veitti Bill Clinton henni hina virtu Frelsisorðu Bandaríkjaforseta.

Stuttu síðar var hún handtekin eftir átök milli stuðningamanna hennar og ríkislögreglunnar og var hún í kjölfarið sett í einangrun á heimili sínu, þar sem hún átti eftir að dúsa fram til ársins 2010.

Uppreisn munkanna

Fjöldamótmæli hófust í Rangoon þegar herforingjastjórnin ákvað að tvöfalda verðið á eldsneyti í águst árið 2007. Um tuttugu þúsund búddamunkar, nunnur og stuðningsmenn þeirra gengu um götur höfuðborgarinnar í fjölmennustu mótmælum sem efnt hafði verið til gegn stjórninni frá „8888 uppreisninni“.

Hersveitir ríkisins létu til skarar skríða en hermönnum var fyrirskipað að skjóta af handahófi á allan mannsöfnuð. Fram kemur í skýrslu Amnesty-samtakanna að um 130 manns hafi látið lífið og yfir tíu þúsund manns verið handteknir í átökunum.

Í skýrslunni segir einnig að árið 2007 hafi yfir 1.200 pólitískir fangar verið í fangelsum landsins. Þá hafi þriðjungur þjóðarinnar búið undir fátæktarmörkum og þriðjungur barna undir fimm ára aldri jafnframt verið vannærður.

Slíkt var ástandið í landinu. 

Loksins frjáls

Vorið 2009 átti sér stað heldur sérkennileg uppákoma. Bandaríkjamaður að nafni John Yettaw tók þá upp á því að synda yfir Inya-stöðuvatnið í Rangoon og komst hann með þeim hætti óséður inn á heimili Suu. Hann bað hana um að láta ekki vita af sér og lét hún það eftir honum. En með því braut hún lög, því útlendingum er bannað að dvelja næturlangt á búrmönskum heimilum. Verðirnir komu auga á Yettaw þegar hann ætlaði að synda burt – tveimur sólarhringum síðar – og handtóku bæði hann og Suu.

Ekki er enn ljóst hvað vakti fyrir honum, en í viðtali við CNN sagðist hann vilja bjarga Suu úr prísundinni. Hún var dæmd í þriggja ára fangelsi og vinnuþrælkun en stjórnvöld milduðu dóminn með því að framlengja vist hennar í stofufangelsinu um átján mánuði. 

Það var loks þann 13. desember árið 2010 að hún var látin laus úr stofufangelsinu og fékk hún þá að hitta syni sína í fyrsta sinn í um áratug. Þrátt fyrir að hafa eytt fimmtán af seinustu 21 ári í stofufangelsi lét hún engan bilbug á sér finna og lofaði að halda áfram að berjast fyrir lýðræðisumbótum í Búrma.

Henni var ekki sleppt úr stofufangelsinu fyrr en eftir þingskosningarnar haustið 2010, sem þóttu afar umdeildar. Flokkur hennar ákvað að sniðganga kosningarnar, en þær voru þær fyrstu sem haldnar voru í landinu frá því árið 1990, þegar Suu vann eftirminnilegan stórsigur. Í kjölfar kosninganna kom út svört skýrsla Sameinuðu þjóðanna en niðurstaða hennar var sú að kosningarnar hefðu hvorki verið frjálsar né sanngjarnar. 

Stjórnmálaskýrendum þótti hins vegar ljóst að pólitísk umskipti væru að eiga sér stað í landinu. Herforingjastjórnin hafði til að mynda sleppt hundruðum pólitískra fanga, samið um vopnahlé við uppreisnarmenn og komið á efnahagslegum umbótum að einhverju marki. Þó var enn mikið verk fyrir höndum, eins og Suu ítrekaði með reglulegu millibili. 

„Upphaf nýrri tíma“

Í desember árið 2011 varð Hillary Clinton fyrsti bandaríski utanríkisráðherrann til að heimsækja Búrma í fimmtíu ár. Heimsóknin markaði því tímamót. Ráðherrann gaf það í skyn að hann myndi reyna að stuðla að bættum tengslum Bandaríkjanna og Búrma, en það var háð því skilyrði að komið yrði á umbótum í landinu.

Boðað var til aukakosninga í aprílmánuði árið 2012. Fyrir kosningarnar ferðaðist Suu um landið þvert og endilangt og alls staðar þyrptist fólk út á götu til að berja hana augum. Erlendir fjölmiðlar greindu frá því að henni hefði verið tekið eins og rokkstjörnu, slík voru fagnaðarlætin.

„Við vonumst til þess að þetta marki upphaf nýrra tíma,“ sagði Suu við stuðningsmenn sína þegar í ljós kom að flokkur hennar hafði fengið 43 þingsæti af þeim 45 sem kosið var um.  Mánuði síðar settist hún á búrmenska þingið í fyrsta sinn.

Um sumarið fór hún í sitt fyrsta ferðalag út fyrir landsteinana í 24 ár. Hún fór til dæmis í sögulega heimsókn til Taílands og flutti loks þakkarræðu sína í Osló, 21 ári eftir að henni hlotnuðust friðarverðlaun Nóbels. „Þó svo að ég biðji fólk um að vera hóflega bjartsýnt, þá þýðir það ekki að ég hafi ekki trú á framtíðinni,“ sagði hún meðal annars í ræðu sinni.

Hún hitti einnig Barack Obama, forseta Bandaríkjanna, í Hvíta húsinu, en hann átti reyndar sjálfur eftir að gera sér ferð til Búrma nokkrum mánuðum síðar. Sú heimsókn var söguleg, og tákn um breytta tíma, því aldrei áður hafði forseti Bandaríkjanna sótt landið heim.

„Þótt stjórnvöld í Búrma hafi gengið ótrúlega langt til að einangra og þagga niður í Aung San Suu Kyi hefur hún haldið áfram hugrakkri baráttu sinni fyrir lýðræði, friði og breytingum í Búrma,“ sagði Obama í heimsókn sinni til Búrma og bætti við:

„Hún er hetja í mínum augum og veitir innblástur öllum þeim, sem vilja vinna að framgangi mannréttinda í Búrma og annars staðar í heiminum.“

Vill verða þjóðarleiðtogi

Það var síðan á fundi Alþjóðaefnahagsráðsins, World Economic Forum, í júnímánuði í fyrra að Suu tilkynnti að hún hygðist bjóða sig fram til forseta í kosningunum sem fyrirhugaðar eru á næsta ári. „Ég væri ekki hreinskilin ef ég léti eins og ég vildi ekki verða forseti,“ sagði hún í ræðu sinni.

En þrátt fyrir ýmsar umbætur í lýðræðismálum í landinu að undanförnu er enn til staðar stjórnarskrárákvæði sem útilokar hvern þann sem á maka eða börn sem búa erlendis frá því að bjóða sig fram til forseta. Talið er að herforingjastjórnin hafi sett ákvæðið í stjórnarskrána gagngert til að koma í veg fyrir frekari frama Suu.

Forseti landsins, Thein Sein, skipaði fyrr á árinu nefnd sem á að fara vandlega yfir málið, að því er segir í frétt Wall Street Journal, og taka síðan ákvörðun um hvort breyta eigi stjórnarskránni þannig að Suu geti boðið sig fram.

Sameinuðu þjóðirnar hafa gagnrýnt það að svo virðist sem að nefndin sé skipuð nánast eingöngu andstæðingum Suu. Herinn á til dæmis sjö fulltrúa í nefndinni, flokkur Shwe Mann, sem hefur lýst áhuga á því að verða næsti forseti Búrma, ellefu fulltrúa en Lýðræðishreyfingin aðeins tvo.

Stjórnmálaskýrendur sem Wall Street Journal ræddi við benda enn fremur á að 70% þingmanna þurfi að samþykkja allar stjórnarskrárbreytingar. Herinn á enn – þrátt fyrir allt sem gengið hefur á – 25% þingsæta og hefur jafnframt neitunarvald.

„Ef stjórnarskránni verður ekki breytt verða hinar svokölluðu lýðræðisumbætur einungis sjónarspil,“ sagði Suu þegar hún tók við Willy Brandt-mannréttindaverðlaununum í Berlín fyrir skömmu. Hún bað jafnframt alþjóðasamfélagið um að vera á varðbergi. Þrátt fyrir umbæturnar væri „lýðræðið ekki í höfn.

Eftir að hafa þurft að feta þröngan stíg í áratugi er erfitt fyrir okkur að víkka sjóndeildarhringinn. Við munum gera það, við getum gert það, en það mun taka tíma.“

Hér að neðan má hlýða á þakkarræðu Suu, 21 ári eftir að henni hlotnuðust friðarverðlaun Nóbels:

Hillary Clinton, fyrrum utanríkisráðherra Bandaríkjanna, heilsar hér Suu.
Hillary Clinton, fyrrum utanríkisráðherra Bandaríkjanna, heilsar hér Suu. AFP
Reuters
Reuters
Aung San Suu Kyi skoðaði leifar Berlínarmúrsins í heimsókn sinni …
Aung San Suu Kyi skoðaði leifar Berlínarmúrsins í heimsókn sinni til Berlínar í byrjun mánaðarins. AFP
Suu og stórsöngvarinn Bono á góðri stundu.
Suu og stórsöngvarinn Bono á góðri stundu. AFP
Suu hitti Barack Obama, forseta Bandaríkjanna, í Hvíta húsinu í …
Suu hitti Barack Obama, forseta Bandaríkjanna, í Hvíta húsinu í september árið 2012. AFP
Reuters
Reuters
Suu og Angela Merkel, kanslari Þýskalands.
Suu og Angela Merkel, kanslari Þýskalands. AFP
Búrmenskir hermenn.
Búrmenskir hermenn. AFP
ROMEO RANOCO
CHRISTOPHE ARCHAMBAULT
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert