Skipstjórinn biðst afsökunar

Skipstjóri ferjunnar sem sökk við strendur Suður-Kóreu í vikunni kom í dag fram fyrir fjölmiðlum og baðst afsökunar á gjörðum sínum. Hann var í gær handtekinn ásamt tveimur öðrum áhafnarmeðlimum, sakaður meðal annars um að hafa yfirgefið manneskjur í neyð og að hafa hafið öryggisaðgerðir of seint. 

Grátkvalinn tjáði skipstjórinn sig við fjölmiðla í gær. „Sjórinn var straumharður og kaldur. Við héldum að fólk myndi ekki lifa af í sjónum án björgunarvesta, þess vegna báðum við fólkið um að halda kyrru fyrir um borð í skipinu. Ég biðst afsökunar á gjörðum mínum og þá sérstaklega bið ég aðstandendur þeirra sem létu lífið afsökunar,“ sagði skipstjórinn. 

Rýmingin tafðist um 40 mínútur

268 manns er enn saknað og er tala látinna nú 31. Skipstjórinn hefur enn ekki gefið neinar upplýsingar um það hvers vegna ferjan sökk. Hann hefur hins vegar staðfest að hann hafi sjálfur ekki verið uppi í brú skipsins þegar slysið átti sér stað. Að sögn yfirvalda var skipstjórinn beðinn um að hefja rýmingu skipsins fljótlega eftir hann sendi neyðarkall. Hann hafi hins vegar beðið með rýminguna í um 40 mínútur, og var það þá um seinan. 

Kafarar hafa nú komist inn í skipið og munu þeir starfa við það næstu daga að koma þeim látnu upp á yfirborðið. 

Sjá frétt mbl.is: Lítil von að fleiri finnist á lífi

Sjá frétt mbl.is: Skipið tók skarpa beygju og sökk

Sjá frétt mbl.is: „Barnið mitt er í vatninu“

Björgunarbátar kanna svæðið þar sem ferjan sökk undan ströndum Suður-Kóreu
Björgunarbátar kanna svæðið þar sem ferjan sökk undan ströndum Suður-Kóreu Mynd/AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert