Tívolí rýmt vegna sprengjuhættu

Horft niður H.C. Andersen breiðgötuna í átt að Tívolí í …
Horft niður H.C. Andersen breiðgötuna í átt að Tívolí í Kaupmannahöfn. mbl.is/Una Sighvatsdóttir

Lögreglan í Kaupmannahöfn rýmdi Tívolí í kvöld vegna grunsamlegs bíls sem talið er hugsanlegt að feli sprengju. Stórt svæði í miðborg Kaupmannahafnar hefur verið girt af á meðan bíllinn er rannsakaður. 

Fram kemur á vef Danmarks Radio að bíllinn, sem stendur við Tietgensgade, sé skráður á pólsk númer en það sem vakti grunsemdir voru vírar eða leiðslur sem standa út úr bílnum og eitthvað sem virðist vera úr inni í honum.

Sprengjuleitasveit danska hersins mun vera á leið á vettvang. Lögreglan lét rýma Tívolí með miklum hraði og var bæði starfsmönnum og gestum fyrirskipað að yfirgefa staðinn.

Búið er að girða af alla Tietgensgade og Bernstorffgade að aðallestastöðinni. Stór hluti H.C. Andersen breiðgötu er einnig girtur af. Þeir sem lögðu bílum sínum innan þess svæðis sem fá ekki að sækja þá fyrr en ljóst verður að hættan sé liðin hjá.

Íslensk fjölskylda með hjartað í buxunum

Íslensk fjölskylda sem mbl.is heyrði frá var í Tívolí í kvöld til að skemmta sér síðasta kvöldið í ferðalagi til Kaupmannahafnar þegar rýmingin hófst. 

„Við ætluðum að kíkja í eitt tækið en vorum rekin úr því. Við héldum að það hefði orðið slys í því tæki sem við fórum í, en lögreglan var mætt til að rýma svæðið, sem greinilega gekk vel og hratt fyrir sig,“ segir Auður Ösp Magnúsdóttir, sem stödd var í Tívolí.

Það var ekki fyrr en út var komið sem þau fengu að vita af hugsanlegri sprengjuhættu.„Hjartað er enn í buxunum og okkur stendur ekki á sama, en vonum að framhaldið muni ganga vel,“ segir Auður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert