Efnavopnum enn beitt í Sýrlandi?

Francois Hollande, forseti Frakklands.
Francois Hollande, forseti Frakklands. EPA

Frönsk stjórnvöld hafa upplýsingar undir höndum sem benda til þess að hersveitir Bashar al-Assad, forseta Sýrlands, beiti enn efnavopnum gegn uppreisnarmönnum í landinu. Þetta sagði Francois Hollande, forseti Frakklands, í útvarpsviðtali í morgun. Hins vegar lægju ekki fyrir beinharðar sannanir í þeim efnum.

„Við höfum ákveðnar upplýsingar en ég hef ekki sannanir,“ er haft eftir Hollande í frétt AFP. Utanríkisráðherra Frakklands, Laurent Fabius, hafði áður sagt í viðtali við útvarpsstöðina, Europe 1, að vísbendingar væru um slíka notkun nýverið sem þó hefðu ekki verið staðfestar. Hins vegar sagði ráðherrann að ef rétt reyndist væri ekki um að ræða jafn umfangsmiklar árásir og gerðar hefðu verið á síðasta ári.

Samkvæmt samkomulagi sem gert var á síðasta ári á milli Bandaríkjanna og Rússlands verða stjórnvöld í Sýrlandi að eyða öllum efnavopnum sínum fyrir lok júní í sumar. Að öðrum kosti gæti komið til loftárása af hálfu Bandaríkjamanna á sýrlenskar hersveitir. Greint var frá því í síðustu viku að sýrlensk stjórnvöld hefðu þá afhent um 2/3 allra efnavopna sinna til eyðingar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert