Lögreglan í útistöðum við ættingjana

Sjávarútvegsráðherra Lee Ju Young var umkringdur fjölskyldum fórnarlambanna þegar hann …
Sjávarútvegsráðherra Lee Ju Young var umkringdur fjölskyldum fórnarlambanna þegar hann heimsótti slyssvæðið í gær. Mynd/AFP

Örvæntingafullir ættingjar hinna látnu og söknuðu úr ferjuslysinu í Suður-Kóreu lentu saman við lögreglusveitir við brú sem tengir eyjuna Jindo, þar sem ættingjarnir dveljast, við meginlandið. Sumir ættingjanna segja stjórnvöld bera sökina á slysinu og öskruðu að lögreglunni: „Ríkisstjórnin er morðingi!“ Eins og mbl.is sagði frá í gær vakta lögreglumenn nú strandlengjuna þar sem skipið fórst, til þess að koma í veg fyrir að fólk reyni að synda að skipsflakinu eða reyni jafnvel að fyrirfara sér á svæðinu.

Ástæðan fyrir reiðinni í garð stjórnvalda er að nýlega hafa komið fram upplýsingar um samskipti skipstjórans við hafnarstarfsfólk. Skipstjórinn segist þar hafa verið hræddur við að láta rýma bátinn vegna mikilla hafstrauma. 

Loks eru nú á þriðja degi frá slysi, komin góð skilyrði til köfunar á svæðinu og hafa kafarar í dag sótt marga af hinum látnu úr flaki skipsins. Staðfest tala látinna er nú 58. Er 252 manns enn saknað. 

Lögregla er nú að fara yfir skráningar- og farmskírteini skipsins til þess að sjá hvernig skipið var hlaðið og hvaða farangur var um borð. Aðalkenningin um óhappið er að skipið hafi tekið of krappa beygju sem varð til þess að hvolfdi áður en það sökk. 

Sjá frétt mbl.is: Engin samúð frá Norður-Kóreu

Sjá frétt mbl.is: Björgunaraðgerðir gætu tekið tvo mánuði

Lögregla vaktar svæðið
Lögregla vaktar svæðið Mynd/AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert