Malasísk flugvél nauðlenti í Kuala Lumpur

Farþegavélin á flugvellinum í Kuala Lumpur í kvöld.
Farþegavélin á flugvellinum í Kuala Lumpur í kvöld. AFP

Farþegavél malasíska flugfélagsins Malaysia Airlines nauðlenti á flugvellinum í Kuala Lumpur, höfuðborg Malasíu, í kvöld. Var hjólabúnaður vélarinnar bilaður, að því er segir í frétt AFP.

Vélin var á leiðinni til borgarinnar Bangalore í suðurhluta Indlands þegar bilunin kom upp í hjólunum undir hægri væng hennar. Var þá ákveðið að snúa við og lenda á flugvellinum í Kuala Lumpur. 159 farþegar voru um borð í vélinni auk sjö manna áhafnar.

„Þau eru lent, guði sé lof,“ sagði Hishammuddin Hussein, ráðherra samgöngumála í Malasíu, á Twittersíðu sinni.

Í dag eru sex vikur frá því að önnur farþegavél flugfélagsins hvarf sporlaust þegar hún var á leiðinni til Kína. Leit hefur staðið yfir af þotunni síðan þá, en hún hefur hins vegar ekki borið neinn árangur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert