Hvöttu til nauðgana og drápa

Flóttafólk frá Suður-Súdan.
Flóttafólk frá Suður-Súdan. AFP

Uppreisnarmenn í Suður-Súdan í Afríku „slátruðu“ hundruðum óbreyttra borgara í þjóðernishreinsunum sínum í bænum Bentiu í síðustu viku, að sögn Sameinuðu þjóðanna.

Í aðalmosku bæjarins voru yfir 200 borgarar teknir af lífi og meira en 400 særðust í þeirri árás. Fleiri árásir voru gerðar á sjúkrahús og kirkjur og byggingu matvælastofnunar Sameinuðu þjóðanna. 

Uppreisnarmennirnir notuðu útvarpsstöð til að hvetja andstæðinga sína til að yfirgefa bæinn. Þá hvöttu þeir karlmenn til að nauðga konum sem til heyra þjóðernishópum andstæðinganna.

Herinn í Suður-Súdan hefur barist gegn uppreisnarhópum sem eru hliðhollir fyrrverandi varaforseta landsins, Riek Machar. Uppreisnarhóparnir hafa í þessum mánuði einbeitt sér að því að ná á sitt vald þorpum og svæðum þar sem olíu er að finna.

Og nú er hafið stríð milli þjóðernishópa. 

Talsmenn Sameinuðu þjóðanna segja að eftir að uppreisnarmennirnir náðu Bentiu á sitt vald hafi harðir bardagar staðið yfir. Þeir segja uppreisnarmennina hafa hundelt þá sem þeir telja andstæðinga sína og drepið þá. 

„Uppreisnarmennirnir leituðu á mörgum stöðum þar sem hundruð Suður-Súdana og erlendra borgara höfðu leitað skjóls, og drápu hundruð óbreyttra borgara eftir að fá úr því skorið af hvaða þjóðarbrotum þeir væru,“ segir í yfirlýsingu friðargæsluliða Sameinuðu þjóðanna. 

 Þá segja friðargæsluliðarnir að uppreisnarmennirnir hafi notað útvarpsstöð til að útvarpa „hatursáróðri sínum og tilkynnt hvaða þjóðernishópar mættu ekki dvelja í Bentiu og jafnvel hvöttu þeir menn af ákveðnu þjóðarbroti til að nauðga konum úr öðrum samfélögum.“

Talsmaður uppreisnarmannanna segir að tekist hafi að „hreinsa til“ í og við Bentiu.

Í Kali Ballee-moskunni, þar sem hundruð manna höfðu leitað skjóls, flokkuðu uppreisnarmennirnir fólkið eftir þjóðerni. Fylgdu þeir ákveðnum hópi í skjól en drápu aðra, segir í yfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna.

Á sjúkrahúsi bæjarins voru margir karlar, konur og börn af Nuer-þjóðinni tekin af lífi. Friðargæsluliðum tókst að koma að minnsta kosti 500 borgurum undan. Margir voru særðir. Um 12 þúsund manns dvelja nú í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í nágrenni bæjarins.

Í síðustu viku drápu uppreisnarmennirnir einnig 58 manns í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna. 

 Á síðustu fjórum mánuðum hafa átökin í landinu harðnað til muna. Framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna varar við yfirvofandi hungursneyð í landinu og telur að fljótlega muni yfir milljón manns líða matarskort.

Flóttafólk frá Suður-Súdan.
Flóttafólk frá Suður-Súdan. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert