Forsetinn ásakar skipstjórann

Forseti Suður-Kóreu sakar skipstjóra ferjunnar sem hvolfdi undan ströndum landsins, um athæfi sem jafngildi morði. Fjórir til viðbótar úr áhöfn ferjunnar hafa nú verið handteknir. Enn er mörg hundruð manna saknað. 

Kafarar hafa nú fundið fyrstu líkin í flaki ferjunnar á hafsbotni.

Um helgina voru þrír handteknir, þeirra á meðal sjálfur skipstjórinn. Í dag lét saksóknari handtaka fjóra til viðbótar, m.a. vélstjóra ferjunnar.

Ferjan Sewol er 6.825 tonn. Hún sökk á miðvikudag undan suðvesturströnd Suður-Kóreu. Um borð voru 476 manns, aðallega framhaldsskólanemar á leið í skólaferðalag.

Skipstjórinn Lee Joon-Seok Lee var handtekinn á laugardag. Einnig voru 1. og annar stýrimaður handteknir. 2. stýrimaðurinn, sem er sagður mjög reynslulítill, var við stjórnvölinn er ferjan lenti í vandræðum.

Þeir hafa verið ákærðir fyrir ýmis brot, m.a. glæpsamlega vanrækslu.

Forseti Suður-Kóreu, Park Geun-Hye, segir að skipstjórinn og aðrir sem báru ábyrgð um borð í ferjunni, hafi gerst sekir um „ófyrirgefanlega glæpi sem jafnast á við morð“.

Hún sagði að hjörtu allra Suður-Kóreumanna væru brotin. Þá væri fólk mjög reitt.

Hún gagnrýndi hinn 69 ára skipstjóra harkalega fyrir að yfirgefa farþega sína og fara fyrstur frá borði. „Þetta er óhugsandi, löglega og siðferðislega.“

Forsetinn segir að allir þættir slyssins verði rannsakaðir. Eigendur skipsins, tryggingafélag, eftirlitsmenn og áhöfn, enginn verður undanskilinn.

Munkur leiðir bænastund ættingja þeirra sem fórust í ferjuslysinu.
Munkur leiðir bænastund ættingja þeirra sem fórust í ferjuslysinu. AFP
Ættingjar syrgja.
Ættingjar syrgja. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert