Brakið er ekki úr flugvélinni

AFP

Brak sem fannst á suðvesturströnd Ástralíu í dag er ekki úr malasísku flugvélinni sem hvarf sporlaust fyrir sex vikum síðan. Þetta kemur fram í frétt AFP og vísað í áströlsk stjórnvöld. Brakið fannst í gær og þótti ástæða til þess að kanna það nánar.

Fram kemur í fréttinni að farið hafi verið nákvæmlega yfir ljósmyndir af brakinu og niðurstaðan að ekki sé um að ræða brak úr flugvélinni. Haft er eftir Martin Dolan, fulltrúa ástralskra samgönguyfirvalda, að allar mögulegar vísbendingar séu kannaðar en því miður hafi þessi ekki skilað árangri.

Flugvélin hvarf þegar hún var á flugi frá Kuala Lumpur í Malasíu til Peking höfuðborgar Kína 8. mars síðastliðinn með 239 manns um borð. Talið er að hún hafi hrapað í Indlandshaf þar sem ítarleg leit hefur staðið yfir að undanförnu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert