Lýsa yfir hryllingi vegna fjöldamorða

Súdönsk stúlka
Súdönsk stúlka AFP

Bandaríkjastjórn lýsir yfir hryllingi vegna fjöldamorðanna í Suður-Súdan þar sem uppreisnarmenn eru sakaðir um að hafa slátrað hundruðum almennra borgara. Sameinuðu þjóðirnar segja ástandið minna á þjóðarmorðið í Rúanda fyrir tveimur áratugum.

Uppreisnarmenn náðu tökum á bænum Bentiou í Suður-Súdan í síðustu viku þar sem hundruð manna voru tekin af lífi.

Talsmaður Hvíta hússins sagði ofbeldið vera viðurstyggilegt og svik við það traust sem almenningur í landinu hefði falið á hendur stjórnvöldum landsins. Hann sagði myndir frá vettvangi sýna lík í stöflum og frásagnir vera af sjúklingum sem myrtir voru er þeir lágu í spítalarúmum sínum, saklausum borgurum sem skotnir voru úti á götum og af fólki sem leitað hafði skjóls í kirkjum og moskum en var tekið af lífi, allt vegna þjóðernis þeirra eða uppruna, og á meðan hafi hatursáróður gengið í útvarpi þar sem menn voru hvattir til þess að nauðga konum sem uppreisnarmenn töldu vera andstæðinga sína.

Sameinuðu þjóðirnar segja uppreisnarmenn hafa haldið áfram að myrða fólk eftir að þeir náðu bænum á sitt vald og tilkynntu um „sigur“ sinn.

Í yfirlýsingu Hvíta hússins var ítrekuð nauðsyn þess að allir þeir sem framið hefðu þessa hryllilegu glæpi yrðu látnir sæta ábyrgð.

Frétt mbl: Vísa ásökunum um fjöldamorð á bug

Frétt mbl: Hvöttu til nauðgana og drápa

Rústir í bænum Bentiou í Suður-Súdan.
Rústir í bænum Bentiou í Suður-Súdan. SIMON MAINA
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert