Brak malasísku vélarinnar enn ófundið

AFP

Það gengur hvorki né rekur í leitinni að malasísku vélinni sem hefur nú verið saknað í næstum sjö vikur. Leitarmennirnir eru orðnir örvæntingarfullir og hefur ekki enn verið ákveðið til hvaða bragðs stjórnvöld munu næst taka, að því er segir í frétt AFP um málið.

Kafbáturinn Bluefin-21, sem skannar hafsbotninn á Suður-Indlandshafi, hefur nú leitað á um 90% leitarsvæðisins sem var afmarkað. Hishammuddin Hussein, samgönguráðherra Malasíu, segir að leitinni verði haldið áfram þar til allt leitarsvæðið hefur verið kembt. Hvað tekur svo við er enn óákveðið.

Tony Abbott, forsætisráðherra Ástralíu, hefur einnig sagt að leitinni verði ekki hætt í bráð. Þess í stað þurfi að hugsa hana upp á nýtt. David Johnston, varnarmálaráðherra Ástralíu, hefur óskað eftir því að fengin verði fleiri skip og flugvélar til hjálpar við leitina. Grípa þurfi til einhverra frekari aðgerða, helst sem fyrst.

Ástralir hafa verið fremstir í flokki leitarmanna á Suður-Indlandshafi seinustu vikur.

Vélin hvarf sporlaust þegar hún var á leið til Peking í Kína frá Kuala Lumpur, höfuðborg Malasíu, þann 8. mars síðastliðinn. Um 239 manns voru um borð og hefur forsætisráðherra Malasíu, Najib Razak, sagt að nær engar líkur séu á því að nokkur hafi komist lífs af í slysinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert