Morðinginn var uppljóstrari FBI

Frazier Glenn Cross hét áður Frazier Glenn Miller.
Frazier Glenn Cross hét áður Frazier Glenn Miller. Skjáskot

Karlmaður sem myrti þrjá við samkomustað gyðinga í Kansas í Bandaríkjunum fyrr í þessum mánuði var meðlimur í öfgasamtökum hvítra þjóðernissinna, Ku Klux Klan. Hann gerðist síðar uppljóstrari fyrir bandarísku alríkislögregluna, FBI, og fékk í kjölfarið að hefja nýtt líf, undir öðru nafni.

Maðurinn hét Frazier Glenn Miller allt þar til ársins 1990 þegar honum var sleppt úr fangelsi eftir þriggja ára dóm. Eftir að hafa gerst uppljóstrari FBI fékk Miller vernd innan fangelsisins og þegar honum var sleppt fór hann í svokallaða vitnavernd. Við það fékk hann nýtt nafn og nýja kennitölu. Árin eftir það starfaði Frazier Glenn Cross sem vöruflutningabílstjóri. Hann bar vitni í dómsmáli fyrir alríkislögregluna árið 1998 en að öðru leyti fréttist ekkert af honum.

Það var svo 13. apríl síðastliðinn að nafnið Frazier Glenn dúkkaði að nýju upp. Þá myrti hann 14 ára dreng, 69 ára afa hans og 53 ára gamla konu við samkomuhús gyðinga í Kansas. Hann var handtekinn á vettvangi og hrópaði „Heil Hitler“ þegar hann var leiddur á brott í handjárnum.

Handtekinn með hörundsdökkum vændiskarli

Bandarískir fjölmiðlar komust á snoðir um fortíð Frazier Glenn og hafa í dag birt sögu hans í all ítarlegu máli. Árið 1987 var Frazier Glenn háttsettur innan Riddara Ku Klux Klan í Karólínu og Þjóðernisflokks í Norður-Karólínu en bæði samtök voru öfgasamtök hvítra þjóðernissinna. Sama ár lýsti hann yfir stríði við blökkumenn og gyðinga og hvatti aðra þjóðernissinna til að steypa Bandaríkjastjórn.

Hróður hans jókst og í apríl 1987 var Frazier Glenn á flótta undan réttvísinni. Snemma morguns 30. apríl umkringdu svo lögreglumenn hjólhýsi hans. Í hjólhýsinu fundust handsprengjur, rörasprengjur, riflar og skammbyssur. Fjórir menn voru handteknir, þar á meðal Frazier Glenn.

Aðeins nokkrum dögum eftir handtökuna hafði hann samið við alríkislögregluna um að gefa upplýsingar um aðra kynþáttahatara. Í viðtölum við fulltrúa FBI neitaði hann hins vegar aldrei sjálfur að aðhyllast kynþáttahatur, hann sagðist hins vegar alfarið vera á móti ofbeldi. Mögulega skipti einnig máli í mati á Frazier Glenn að ári áður hafði hann verið handtekinn með hörundsdökkum vændiskarli.

Allt saman blekkingaleikur?

Árið 1998 átti Frazier Glenn svo að vera lykilvitni í máli gegn tugi öfgafullra þjóðernissinna. Framburður hans var hins vegar svo ófullnægjandi að allir voru mennirnir sýknaðir. Og reyndar gekk einn kviðdómara síðar í hjónaband með einum ákærðu í málinu. Eftir þetta fóru menn að hallast að því að Frazier Glenn hafði haldið úti blekkingaleik.

Engu að síður var Frazier Glenn ekki undir neinu eftirliti og fór litið fyrir honum næstu sextán ár.


ABC US News | ABC Business News

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert