Ofurhugi lést í fallhlífarslysi

Í fjallahéraði í Búrúndí.
Í fjallahéraði í Búrúndí. Ljósmynd/Eric Hill

Bandaríski ofurhuginn Eric Hill er látinn, 31 árs að aldri. Hill hafði það að markmiði að heimsækja öll heimsins lönd og kom við á Íslandi í nokkra daga í fyrra. Hill var við leik á svifvæng í Utah í Bandaríkjunum þegar slys varð til þess að hann hrapaði til jarðar.

Þrátt fyrir að upplýsingar um slysið séu af skornum skammti er greint frá því í fjölmiðlum vestanhafs að fallhlíf sem Hill bar hafi ekki opnast með réttum hætti þannig að hann féll til jarðar. Í því sambandi má minnast þess að í júlí í fyrra henti Hill sér ásamt Gísla Steinari Jóhannessyni svifvængjakennara fram af Laugarvatnsfjalli við Laugarvatn í svifvæng, Hill losaði sig síðan frá svifvængnum, féll í frjálsu falli og sveif til jarðar í fallhlíf.

Frá stökki Hill var greint í Morgunblaðinu og haft eftir Gísla að það hafi verið taugatrekkjandi þegar Hill sleit sig lausan. „Þetta gerðist allt mjög hægt, ég var ekki viss um að þetta tækist og vissi það í raun ekki fyrr en ég sá fallhlífina opnast,“ segir hann og bætir við: „Fólk sem var á tjaldstæðinu vissi ekkert hvað var í gangi og margir öskruðu þegar þeir sáu manninn falla.“

Hér má sjá stökkið

Ætlaði að taka þátt í sjónvarpsþætti

Eins og áður segir slasaðist Hill alvarlega á sunnudag. Eftir það var honum haldið sofandi í öndunarvél en hann lést svo í gær. Fjölskylda hans sat við rúmstokkinn þegar hann hvarf yfir móðuna miklu og á samfélagsvefnum Facebook segist systir hans, Karen Trace, eiga erfitt með að hugsa sér lífið án hans.

Til stóð að Hill tæki þátt í stefnumótaþættinum Piparmærin (e. Bachelorette) sem sýnd er í bandarísku sjónvarpi og hafa aðstandendur þáttarins sent fjölskyldu Hill samúðarkveðju í gegnum samfélagsvefinn Twitter. Í kveðjunni segir að Hill hafi með hugrekki sínu, ástríðu og einstöku hugarfari hvatt alla sem hann hitti til að verða betri manneskjur.

Ávallt spenntur fyrir næsta áfangastað

Hill hóf ferðalag sitt um heiminn í í fyrra febrúar og var Ísland 18. landið sem hann fór um. Í samtali við mbl.is sagðist Hill ekki óttast að þreytast og gefast upp. „Þetta er eiginlega eins og fíkn. Eftir því sem ég ferðast meira rennur upp fyrir mér hvað ég á eftir að sjá mikið og þeim mun spenntari verð ég fyrir næstu áfangastöðum.“

Hill hélt úti vefsvæði og setti inn myndir og ferðasögu sína á samfélagsmiðlana FacebookTwitter, Youtube og Instagram

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert