Segir Rússa svíkja samkomulagið í Genf

Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, á blaðamannafundinum í Tókyó.
Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, á blaðamannafundinum í Tókyó. AFP

Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, sakar Rússa um að fara ekki eftir samkomulaginu fræga sem náðist í borginni Genf í Sviss seinasta fimmtudag. Hann hótar frekari refsiaðgerðum ef Rússar láti ekki af aðgerðum sínum og vinni ekki að því draga úr spennu í Úkraínu, eins og markmið samkomulagsins var.

Bæði rússneskir og bandarískir hermenn hafa hafið æfingar í nágrenni við Úkraínu. Í frétt AFP segir að 150 bandarískir hermenn hafi komið til Póllands nú í morgun.

Obama sagði á blaðamannafundi í Tókyó, höfuðborg Japans, þar sem hann er um þessar mundir í heimsókn, að Rússar hefðu ekkert gert til að bæta ástandið í Úkraínu.

„Þess í stað höfum við haldið áfram að sjá illgjarna, vopnaða menn leggja undir sig byggingar, áreita þá sem eru ósammála þeim, valda spennu á svæðinu og við höfðum ekki séð Rússa stíga fram og hvetja þá til að hætta þessu,“ sagði Obama.

Rússar sætu bara aðgerðalausir.

Á hinn bóginn hefðu stjórnvöld í Kænugarði hagað sér vel og staðið við það sem samið var um í Genf.

Ef Rússar myndu ekki bæta ráð sitt, þá myndi það hafa í för með sér „afleiðingar og við myndum grípa til frekari refsiaðgerða,“ benti Obama á.

Fullyrðingar Lavrov hlægilegar

Á fimmtudaginn í síðustu viku skrifuðu Úkraínumenn, Rússar, Bandaríkjamenn og Evrópusambandið undir samkomulag í Genf sem fólst meðal annars í því að aðskilnaðarsinnar í borgum í austurhluta Úkraínu myndu yfirgefa þær opinberu byggingar sem þeir hafa lagt undir sig.

Í gær sagði Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, að Bandaríkjamenn stæðu á bak við ákvarðanir úkraínsku ríkisstjórnarinnar og stjórnuðu í raun á bak við tjöldin. Hann varaði þá jafnframt við því að Rússar myndu bregðast við ef ráðist yrði gegn hagsmunum þeirra í Úkraínu.

„Ef ráðist verður á okkur munum við án efa svara fyrir það,“ sagði Lavrov í sjónvarpsútsendingu í ríkissjónvarpi Rússlands.

Haft var eftir Jen Psaki, talsmanni bandaríska varnarmálaráðuneytisins, í gærkvöldi að fullyrðingar ráðherrans væru hlægilegar.

Eins og kunnugt er ákváðu Bandaríkjamenn á þriðjudaginn að senda 600 hermenn til Póllands og Eystrasaltsríkjanna vegna ástandsins í Úkraínu. 150 manns komu til Póllands nú í morgun en í frétt AFP segir að reiknað sé með því að hinir 450 mæti til heræfinga á næstu dögum.

Fyrstu bandarísku hermennirnir komu til Póllands í morgun.
Fyrstu bandarísku hermennirnir komu til Póllands í morgun. AFP
Bandarískir hermenn.
Bandarískir hermenn. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert