„Auschwitz Miðjarðarhafsins“

Stefano Frumento, skipstjóri ítölsku freigátunnar sem aðstoðaði við að bjarga flóttamönnum frá borði á drekkhlöðnum fiskibáti á sunnudagskvöldið segist aldrei hafa séð nokkuð í líkingu við það sem beið þeirra. Lögreglan segir að líkum hafi verið staflað upp í káetu sem minnti mest á fjöldagröf: þetta er Auschwitz  Miðjarðarhafsins.

Alls hafa fundist 45 lík flóttamanna um borð í fiskibát sem flutti á sjötta hundrað flóttamenn frá Afríku til Evrópu. Fólkinu hafði verið troðið inn í lítið hólf um borð, hurðinni læst og fólkið látið deyja þar eins og skepnur segja þeir sem lifðu ferðalagið af.

Frumento segir að þegar freigátan hafi komið að flóttabátnum hafi smábörn, þungaðar konur og menn hangið fyrir utan borðstokk bátsins og kallað á hjálp.

„Ég hef aldrei séð jafn margt fólk troðið undir á minni ævi. Það voru yfir 600 manns í hrúgu á 20 metra fleti,“ sagði hann í viðtali við ítalska blaðið La Stampa. Farið var með bátinn í togi til hafnar í Pozzallo á Sikiley.

Flestir flóttamannanna koma frá Sýrlandi, Erítreu, Sómalíu og Kamerún. Höfðu þeir siglt frá strönd Norður-Afríku til Ítalíu.

Líkunum staflað upp eins og í fjöldagröf

Nico Ciavola, lögreglustjóri í Pozzallo, segir að í káetunni hafi tugum líkum verið staflað líkt og í fjöldagröf, hið nýja Auschwitz í Miðjarðarhafinu og vísar þar til útrýmingarbúða nasista í seinni heimstyrjöldinni.

Meðal þeirra sem lifðu ferðalagið af eru 52 börn, sum einungis nokkurra mánaða gömul, og þrjár konur sem eru komnar á steypirinn. 

Borgarstjórinn í Pozzallo, Luigi Ammatuna, segir málið skelfilegt þar sem hann fylgist með flutningi á líkkistum á bryggjusporðinn og að honum líði eins og hann hafi fengið þungt hnefahögg í kviðinn.

Þeir sem lifðu af eru í fjöldahjálparstöð í borginni og verður væntanlega haldið þar þangað til rannsókn lýkur. En þetta er ekki eina dæmið um slíkan harmleik því í október í fyrra drukknuðu yfir 400 flóttamenn skammt við strönd ítölsku eyjunnar Lapedusa.  

Boltuðu hurðina aftur

Óttast er að flóttamennirnir sem reyni að komast til Evrópu í ár verði enn fleiri en árið 2011 þegar arabíska vorið var í algleymi. Það ár komu yfir 63 þúsund flóttamenn sem vitað er um til ríkja Evrópusambandsins, samkvæmt upplýsingum frá Frontex landamæraeftirliti ESB.

„Við vorum allt of mörg. Þeir neyddu okkur upp í bátinn, þrátt fyrir að það væri ekkert pláss eftir. Þeir sem voru lokaðir inni í káetunni voru myrtir,“ segir ungur sýrlenskur flóttamaður í viðtali við Corriere della Sera.

„Þegar þeir reyndu að komast út, að flýja hitann og súrefnisskortinn og bræluna, óttuðust smyglararnir að bátnum myndi hvolfa og fyrirskipuðu þeim að vera inni í káetunni og boltuðu hana aftur,“ segir enn fremur í frétt Corriere della Sera.

Þau litu út fyrir að vera sofandi

Einn flóttamannanna segir í viðtali við La Repubblica að þau hafi reynt að bjarga félögum og ættingjum sínum út úr káetunni þegar þeim varð ljóst hvað væri að gerast. „Við reyndum allt en það var orðið of seint. Þau litu út fyrir að vera sofandi,“ segir hann.

Annar segir í La Repubblica: „Þeir stöfluðu okkur upp eins og skepnum. Við báðum um að það yrði snúið við en þeir sögðu að það væri of seint.“

Tveir menn sem voru um borð í fiskibátnum voru handteknir í gær grunaðir um mansal, að því er fram kemur í ítölskum fjölmiðlum í dag.

Yfir 600 flóttamenn reknir á dyr

Í morgun hreinsaði franska lögreglan út úr miðstöð þar sem flóttafólk hefur verið boðið upp á matarúthlutun og þremur stöðum þar sem flóttafólk hefur sest að án heimildar í hafnarborginni Calais. Alls voru 610 flóttamenn, þar af 121 barn, á stöðunum sem voru rýmdir en fólkið er að reyna að komast yfir Ermarsundið til Bretlands.

Lögregla greip til aðgerðanna í morgun eftir að hafa fengið dómsúrskurð sem heimilaði að staðirnir yrðu rýmdir vegna skorts á hreinlæti.

Flóttamenn sem var bjargað úr sjávarháska við Ítalíu í dag segja að um 75 félagar þeirra hafi drukkað þegar bát þeirra hvolfdi. 

Samkvæmt upplýsingum frá flóttamannaaðstoð Sameinuðu þjóðanna var 27 manns bjargað en aðrir sem voru um borð, um 75 manns, eru taldir af.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert