Öryggisráðið fundar um Gaza

Eldglæringar á himni frá loftárás yfir Gaza í dag.
Eldglæringar á himni frá loftárás yfir Gaza í dag. AFP

Neyðarfundur verður haldinn í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna á morgun vegna stigvaxandi ofbeldisverka milli Ísrales og Hamas samtakanna á Gaza svæðinu.

Ban Ki-moon framkvæmdastjóri SÞ mun sitja fundinn, sem hefst klukkan 10 í fyrramálið að staðartíma í Bandaríkjunum en 14 síðdegis að íslenskum tíma, og mun hann flytja samantekt um stöðu mála en að því loknu ráða aðildarríkin 15 ráðum sínum fyrir lokuðum dyrum.

Það voru sendifulltrúar Arabaríkja gagnvart SÞ sem fóru fram á að fundurinn yrði haldinn.

Ban sagði í kvöld að ástandið á Gaza sé á brúninni og að Mið-Austurlönd standi nú frammi fyrir einhverri alvarlegustu áskoruninni í áraraðir. Ummæli hans þykja óvenjuopinská, en þau féllu eftir daglanga fundi framkvæmdastjórans við ýmsa leiðtoga heims, þar á meðal Benjamín Netanyahu forsætisráðherra Ísraels, Mahmud Abbas forseta Palestínu, John Kerry utanríkisráðherra Bandaríkjanna og Abdel Fattah al-Sisi forseta Egyptalands.

„Ég hef miklar áhyggjur af nýjustu ofbeldisbylgjunni sem gengur yfir Gaza, suðurhluta Ísrael og Vesturbakkann - þar á meðal Austur-Jerúsalem. Þetta er ein alvarlegasta staða sem svæðið hefur þurft að ráða fram úr í áraraðir,“ sagði Ban meðal annars.

Hann segir að ástandið gæti auðveldlega farið úr böndunum. „Hættan er raunveruleg á því að enn frekara ofbeldi brjótist út. Gaza, og svæðið allt, má ekki við því að steypast í enn eitt stríðið.“

Ban hvatti að sögn Netanyahu til að gæta ýtrustu varúðar og virða alþjóðlegar skuldbindingar við að vernda almenna borgara.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert