Flestir veðja á Thorning-Schmidt

Flestir veðja á að forsætisráðherra Danmerkur, Helle Thorning-Schmidt, taki við embætti forseta leiðtogaráðs Evrópusambandsins, Hermans van Rompuys, í nóvember.

Bæði Financial Times og Economist telja að hún sé líklegust til þess að verða fyrir valinu og veltir ritstjórn Economist fyrir sér hvað þetta sé með norræna stjórnmálamenn. 

Berlingske fjallar um þessar fréttir og bendir á nokkra norræna stjórnmálamenn sem hafa verið að gera það gott alþjóðlega.

Til að mynda Anders Fogh Rasmussen, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins og fyrrverandi forsætisráðherra Danmerkur. Þegar lætur af starfinu hjá NATO mun fyrrverandi forsætisráðherra Noregs, Jens Stoltenberg, taka við því.

Fyrrverandi leiðtogi Verkamannaflokks Noregs og núverandi framkvæmdastjóri Evrópuráðsins, Thorbjørn Jagland. Utanríkisráðherra Svíþjóðar og fyrrverandi forsætisráðherra, Carl Bildt, sem var afar áberandi í friðarviðræðum á Balkanskaganum og sérlegur útsendari Sameinuðu þjóðanna þar. Jyrki Katainen, fráfarandi forsætisráðherra Finnlands sem er að taka við af samlanda sínum Olli Rehn í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins.

Á morgun munu þingmenn á Evrópuþinginu síðan greiða atkvæði um næsta forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. Er nánast öruggt að það verði  Jean-Claude Juncker en í síðustu viku fékk hann 26 af 28 greiddum atkvæðum leiðtoga Evrópusambandsríkjanna þrátt fyrir mikla andstöðu frá forsætisráðherra Bretlands, David Cameron. Voru það einungis Bretar og Ungverjar sem ekki greiddu atkvæði með Juncker.

En hann þarf hreinan meirihluta, það er 376 af 751 atkvæði frá Evrópuþingmönnum áður en skipan hans í embætti verður staðfest.

B

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert