„Það minnsta sem þeir geta gert“

Barack Obama.
Barack Obama. AFP

Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, segir að Vladimír Pútín, forseti Rússlands, verði að fá aðskilnaðarsinna í austurhluta Úkraínu til samstarfs við þá sem ætla að rannsaka hrap malasísku farþegaflugvélarinnar.

„Aðskilnaðarsinnarnir, sem njóta stuðnings Rússa, eru enn að tefja fyrir rannsókninni. Þeir hafa ítrekað komið í veg fyrir það að alþjóðlegir rannsakendur fái fullan aðgang að flakinu. Þegar rannsakendur nálgast skjóta aðskilnaðarsinnar upp í loftið. Þá spyr maður sig, hvað hafa þeir að fela?“ sagði Obama í ávarpi sínu frá Hvíta húsinu í dag.

Obama sagði að aðskilnaðarsinnar væru einnig að færa til lík á svæðinu, án þeirrar virðingar sem til er ætlast. „Þetta er móðgun við alla þá sem misstu ástvini sína,“ sagði Obama. 

Obama ítrekaði að Rússar hefðu bein áhrif á aðskilnaðarsinnanna og að Pútín bæri ábyrgð á því að fá þá til samstarfs við rannsakendur. „Það er það minnsta sem þeir geta gert.“

Fjórir dagar eru frá því að farþegavél Malaysian Airlines var skotin niður í austurhluta Úkraínu á leið sinni frá Amsterdam til Kuala Lumpur. Allir sem voru um borð, 298 manns, fórust.

„Núna er boltinn hjá Rússum sem verða að krefjast þess að aðskilnaðarsinnarnir hætti að eiga við vettvanginn og leyfi rannsakendum að fara um slysstaðinn, óheftir.“

Bandarísk yfirvöld halda því fram að vélin hafi verið skotin niður með SA-11 flugskeytakerfi, en Rússar eru sagðir hafa útvegað aðskilnaðarsinnum í Úkraínu slík vopn.

„Í augnablikinu beinum við sjónum að því að fá lík þeirra sem létust, að rannsaka hvað nákvæmlega gerðist og safna staðreyndum. Við verðum að vera viss um að sannleikurinn verði leiddur í ljós.“

Obama sagði að ættingjar fórnarlambanna yrðu að fá lík þeirra svo að þeir geti lagt þá til hinstu hvílu með sóma. „Umheimurinn á skilið að vita hvað nákvæmlega gerðist og úkraínska þjóðin verður að fá að vita hver framtíð hennar verður.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka