Kerry og Ban funda með Egyptum

Ban Ki-moon og John Kerry munu í dag funda með leiðtogum Egyptalands um möguleikann á vopnahléi milli Ísraels og Hamas-samtakanna á Gaza. Þrátt fyrir að öryggisráð Sameinuðu þjóðanna hafi aðfaranótt mánudags kallað eftir tafarlausu vopnahléi hélt Ísraelsher áfram harðri sókn á Gaza í gær þegar átta voru drepnir, þar af fjögur börn.

Í morgun héldu loftárásir áfram á Gaza og eru sjö látnir það sem af er degi, þar af a.m.k. fjórar konur. Þar með eru alls 583 Palestínumenn látnir síðan hernaður Ísraelsmanna hófst, mikill meirihluti þeirra almennir borgarar. 

Alls 29 Ísraelsmenn liggja í valnum, flestir þeirra hermenn, og er þetta mesta mannfall í Ísraelsher í tæpan áratug.

Utanríkisráðherra Bandaríkjanna, John Kerry, sagði, þegar hann lagði af stað til Kaíró í gærkvöldi, mikla ábyrgð hvíla á herðum Hamas-samtakanna um að semja um vopnahlé við Ísraelsmenn. „Nú þurfa Hamas-menn að taka ákvörðun um að hlífa saklausum borgurum við þessu ofbeldi,“ sagði Kerry.

Framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, Ban Ki-moon, kallaði eftir því að ofbeldinu yrði tafarlaust hætt af hálfu hvorra tveggja.

Bandaríkin ætla að leggja 47 milljónir dala til að aðstoða Palestínumenn vegna árása Ísraelsmanna á Gaza, þar sem hátt í 100.000 manns hafa flúið eða misst heimili sín.

Mynd tekin Ísraelsmegin við landamærin að Gaza sýnir reykjarsúlur stíga …
Mynd tekin Ísraelsmegin við landamærin að Gaza sýnir reykjarsúlur stíga til himins eftir hernaðaraðgerðir Ísraels gegn Palestínumönnum. AFP
Palestínskur drengur sækir dýnu í rústir fyrrum heimili síns eftir …
Palestínskur drengur sækir dýnu í rústir fyrrum heimili síns eftir loftárásir Ísraelshers. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert