Flogið með fyrstu líkin til Hollands

Flogið verður með fyrstu líkin úr flugi MH17 til Hollands í dag, svo unnt verði að bera kennsl á þau. Opinber sorgardagur er í Hollandi í dag vegna hinna 298 látnu, en 193 af þeim voru Hollendingar. Útlit er fyrir að ekki hafi tekist að endurheimta öll líkin, heldur séu líkamsleifar enn á víðavangi.

Frétt­ir bárust af því í gærkvöldi að aðeins 200 lík hafi skilað sér til úkraínsku borgarinnar Karkív. Sendinefnd ÖSE segir enga leið að staðfesta það, að svo stöddu. For­ingi upp­reisn­ar­mann­anna, Al­ex­and­er Borodai, seg­ir að þeir hafi af­hent öll lík­in sem fund­ust við brak vél­ar­inn­ar, en talsmaður sendinefndar ÖSE segir ljóst að ekki hafi allar líkamsleifar fundist.

Segir illa staðið að leitinni

Forsætisráðherra Ástralíu, Tony Abbott, lýsti þeirri skoðun sinni á blaðamannafundi í Canberra í morgun að illa hefði verið staðið að því að endurheimta líkin. „Það hefur til þessa verið mjög ófagmannlegt,“ sagði forsætisráðherrann.

„Það er hugsanlegt að mörg lík liggi þarna ennþá, berskjölduð fyrir evrópska sumarveðrinu, fyrir óviðkomandi ágangi og dýrum á svæðinu [...] Svo lengi sem sá möguleiki er til staðar að líkamsleifar Ástrala liggi þarna, þá skuldum við fjölskyldum þeirra það að gera allt sem við getum til að endurheimta þær.“

28 ástralskir ríkisborgarar voru um borð í vélinni sem var skotin niður, og 9 til viðbótar sem búsettir voru í Ástralíu. Rannsakendur hafa sagt að leit verði haldið áfram á svæðinu, eftir því sem fram kemur á vef BBC.

Gæti tekið marga mánuði að bera kennsl á þau

Um 50 líkkistur voru í morgun við flugbrautina í Karkív, búnar undir flutning til Hollands. Búist er við því að lent verði með þau í Eindhoven um kl. 16 að hollenskum staðartíma. Meðlimir hollensku konungsfjölskyldunnar og Mark Rutte forsætisráðherra Hollands munu taka á móti flugvélinni.

Líkin verða flutt á hervöllinn Korporaal van Oudheusden þar sem unnið verður að því að bera kennsl á þau, en Rutte segir að það sé ferli sem geti tekið marga mánuði.

Uppreisnarmenn í Úkraínu afhentu malasískri sendinefnd í gær flugritana úr vél Malaysia Airlines, en Malasía hefur nú afhent hollenskum yfirvöldum þá. Þeir verða fluttir til Franborough í Bretlandi þar sem upplýsingar úr þeim verða greindar.

Lestin með um eða yfir 200 líkum sem fundust á …
Lestin með um eða yfir 200 líkum sem fundust á vettvangi brotlendingar MH17 kom til Karkív í Úkraínu í gær. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert