Gróf holu og dó í henni

AFP

Ungur maður lést á strönd í Norður-Kaliforníu eftir að hola sem hann var að grafa í sandinn féll saman. Maðurinn var ofan í holunni og grófst í sandinn. Fimm mínútur liðu þar til hann var grafinn upp en þá var það of seint.

Atvikið átti sér stað á mánudag. Maðurinn, sem var 26 ára, hafði grafið um 3 metra djúpa holu og stóð enn ofan í henni. Allt í einu hrundi holan saman, segir talsmaður slökkviliðsins, samkvæmt frétt AP-fréttastofunnar.

Vinir mannsins og fleiri sem voru á ströndinni hófu þegar að grafa hann upp og notuðu til þess hendurnar og fötur. Eftir um fimm mínútur tókst þeim að grafa höfuð hans upp úr sandinum. Slökkviliðið var þá að mæta á staðinn. Í ljós kom að maðurinn var þá meðvitundarlaus. Reynt var að halda öndunarvegi hans opnum og haldið var áfram að grafa hann upp. Það tók um 35 mínútur. Lífgunartilraunum var þegar haldið áfram en maðurinn var síðar úrskurðaður látinn á staðnum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert