Hamas samþykkja ekki vopnahlé

Khaled Meshaal fer fyrir Hamas-samtökunum.
Khaled Meshaal fer fyrir Hamas-samtökunum. AFP

Leiðtogi Hamas-samtakanna segir að vopnahlé verði ekki samþykkt fyrr en efnahagslegum hindrunum Ísraelsmanna á Gaza-svæðinu verður aflétt. Breska ríkisútvarpið greinir frá þessu. Ísraelsmenn hafa aftur á móti þegar gefið út að þeir muni samþykkja að gera hlé á árásunum.

Khaled Meshaal, leiðtogi samtakanna, segir að Hamas muni neita öllum viðræðum um vopnahlé þar til fallist verður á kröfur þeirra.

Auk þess að fella niður efnahagslegar hindranir setja samtökin skilyrði sem lúta meðal annars að því að Rafah-landamærin að Egyptalandi verði opnuð og að Ísraelsmenn láti palestínska fanga lausa.

Að minnsta kosti 649 Palestínumenn og 35 Ísraelsmenn hafa látist í átökunum á Gaza-svæðinu síðan átökin hófust hinn 8. júlí.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert