Kerry kominn til Ísraels

John Kerry utanríkisráðherra lenti í Tel Aviv í Ísrael í …
John Kerry utanríkisráðherra lenti í Tel Aviv í Ísrael í morgun og tók fulltrúi bandaríska sendiráðsins í Ísrael, Bill Grant, á móti honum. AFP

John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, lenti í Tel Aviv í Ísrael í morgun, þrátt fyrir að flugmálastofnun Bandaríkjanna hafi af öryggisástæðum í gær sett bann við því að farþegaflugvélar lentu þar. Blaðamenn voru beðnir um að segja ekki frá ferðum hans fyrr en hann væri lentur.

Sjá frétt mbl.is: Talið óöruggt að fljúga til Tel Aviv

Kerry hefur verið í Egyptalandi síðan á mánudag, þar sem hann hefur rætt við stjórnvöld um möguleika á vopnahléi á Gaza. Eftir að hann lenti í Tel Aviv hélt hann beinustu leið til Jerúsalem þar sem þeir Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, munu hittast. Að því loknu mun Kerry ferðast til borgarinnar Ramallah á Vesturbakkanum og ræða þar við Mahmud Abbas, leiðtoga Palestínumanna.

Að lokum mun hann ræða við Benjamín Netanyaju, forsætisráðherra Ísraels, í Tel Aviv. Kerry er sagður hafa undirbúið fundina með símasamtölum við alla þrjá, langt fram eftir nóttu. Hann hefur hvatt alla aðila til að taka vel í frumkvæði Egypta til vopnahlés, svo tóm gefist til friðarviðræðna. Ísraelar sögðust ætla að samþykkja vopnahlé, en Hamas-samtökin í Palestínu sögðu tillöguna óásættanlega þar sem kröfur þeirra væru að engu hafðar. Þar á meðal var krafa um aukið ferðafrelsi, en Ísraelsmenn hafa haldið íbúum Gaza í nokkurs konar gíslingu í 8 ár.

Bandaríkjamenn hafa ítrekað lýst því yfir að Ísraelsmenn eigi rétt á því að verja sig, á meðan Hamas haldi áfram að skjóta flugskeytum í átt að þeim. Bæði Kerry og Barack Obama hafa þó lýst vaxandi áhyggjum sínum af afleiðingunum fyrir almenna borgara, en yfir 640 Palestínumenn hafa látið lífið í árásum Ísraelshers, þar af fjölmörg börn.

Ban Ki-moon framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna hittir John Kerry í Jerúsalem …
Ban Ki-moon framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna hittir John Kerry í Jerúsalem í dag. AFP
Mahmoud Abbas forseti Palestínu mun eiga fund með John Kerry …
Mahmoud Abbas forseti Palestínu mun eiga fund með John Kerry í Ramallah á Vesturbakkanum. AFP
Benjamín Netanyahu forsætisráðherra Ísraels verður síðasti maðurinn sem John Kerry …
Benjamín Netanyahu forsætisráðherra Ísraels verður síðasti maðurinn sem John Kerry fundar með í Ísraelsferðinni. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert