Hröpuðu í hafið á góðgerðaflugi

Feðgarnir ætluðu að fljúga umhverfis hnöttinn á Beechcraft flugvél, en …
Feðgarnir ætluðu að fljúga umhverfis hnöttinn á Beechcraft flugvél, en hröpuðu í hafið á létu báðir lífið á lokaleggnum. AFP

Bandarískur unglingspiltur og faðir hans, sem ætluðu að flúgja umhverfis hnöttinn fyrir gott málefni, hröpuðu í hafið á þriðjudag og létu báðir lífið. Fjölskylda þeirra segir að feðgarnir hafi gert sér grein fyrir áhættunni.

Pilturinn, Haris Suleman, var 17 ára frá Indiana í Bandaríkjunum. Lík hans er fundið en föður hans, Babar Suleman, er enn leitað. Þeir flugu lítilli Beechcraft flugvél sem hrapaði við Samóaeyjar í Kyrrahafi á þriðjudag.

Feðgarnir voru á síðasta leggnum í hnattferðinni, sem markmiðið var að ljúka á 30 dögum og safna um leið áheitafé til styrktar byggingu grunnskóla í Pakistan.

„Maður veit að þegar lagt er í för sem þessa þá er alltaf áhætta, og þeir bjuggu sig undir áhættuna,“ hefur BBC eftir dóttur Babar og systur Haris. „Þeir þjálfuðu sig til að komast af úr erfiðum aðstæðum. Þeir fóru á námskeið í neyðarlendingum á hafi og brotlendingum. En þú veist, það er hægt að skipuleggja sig endalaust en stundum fara hlutirnir bara ekki á þann veg sem þú ætlaðir.“

Þeim hafði tekist að safna rúmri milljón Bandaríkjadala, ríflega 115 milljónum króna, fyrir góðgerðasamtökin Citizens Foundation, sem byggja skóla fyrir börn sem minna mega sín í Pakistan.

BBC greinir frá þessu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert