Segja skrokk MH17 götóttan

Eftirlitsnefnd Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu, ÖSE, segir að bútar úr skrokki flugvélarinnar sem skotin var niður yfir Úkraínu séu greinilega götóttir. Frekari rannsókn þurfi hinsvegar til að ákvarða af hvaða völdum. Breskir sérfræðingar byrja í dag að rannsaka flugrita vélarinnar, samkvæmt BBC.

Vélin féll til jarðar á fimmtudag fyrir viku eftir að hún varð fyrir flugskeyti frá aðskilnaðarsinnum hliðhollum Rússum, að því er talið er. Ótti manna er að á þeirri viku sem liðin er frá hörmungunum hafi aðskilnaðarsinnar átt við möguleg sönnunargögn.

Eftirlitsmenn frá ÖSE hafa farið nokkrum sinnum á staðinn þar sem vélin kom niður. Michael Bociurkiw, talsmaður eftirlitsteymisins, segir að stórir hlutar af braki vélarinnar, þar á meðal stélið, líti öðruvísi út en það gerði við fyrstu skoðun. Helst líti út fyrir að skorið hefði verið í þá.

Erfitt að fela verksummerkin

Í fréttaskýringu Kjartans Kjartanssonar um málið í Morgunblaðinu í dag kemur fram að venjan er að slysstaðir séu lokaðir af eins og vettvangur glæps þangað til rannsóknarteymi nái að kanna aðstæður. Því hefur hins vegar ekki verið að heilsa í Úkraínu. Brot úr vélinni virðast hafa dreifst yfir stórt svæði og skiptir sú dreifing máli. Hafi hlutar braksins verið færðir gæti það spillt fyrir rannsókninni.

Engu að síður væri það ákaflega erfitt fyrir aðskilnaðarsinna að hylma yfir ábyrgð sína með því að skipta út flugvélarhlutunum eða fela skemmdir. Hafi flugskeyti grandað vélinni ætti rannsókn á brakinu að leiða það í ljós, að mati David Gleave, flugmálasérfræðings við Loughborough-háskóla á Englandi.

Flugritar vélarinnar bárust til breskra flugmálayfirvalda í gær. Þó að mögulegt sé að eiga við þá er talið ólíklegt að hægt hafi verið að falsa gögn á þeim á svo skömmum tíma. Robert Francis, varaformaður samgönguöryggisnefndar Bandaríkjanna, segir að flugritar geti skemmst þannig að ómögulegt sé að lesa gögnin á þeim. Hann hafi hins vegar aldrei heyrt um að átt hafi verið við upplýsingarnar á þeim. Litlar líkur séu á því að flugritarnir úr malasísku vélinni veiti ekki góðar upplýsingar um hvað gerðist.

Frá brotlendingarstað vélar Malaysia Airlines, flugleið MH17, á engi nærri …
Frá brotlendingarstað vélar Malaysia Airlines, flugleið MH17, á engi nærri þorpinu Grabove, í Donetsk héraði. AFP
Frá brotlendingarstað vélar Malaysia Airlines, flugleið MH17, á engi nærri …
Frá brotlendingarstað vélar Malaysia Airlines, flugleið MH17, á engi nærri þorpinu Grabove, í Donetsk héraði. AFP
Frá brotlendingarstað vélar Malaysia Airlines, flugleið MH17, á engi nærri …
Frá brotlendingarstað vélar Malaysia Airlines, flugleið MH17, á engi nærri þorpinu Grabove, í Donetsk héraði. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert