Selur einkaþotu Schumachers

Mynd/AFP

Corinna Schumachers, eiginkona ökuþórsins Michaels Schumachers, hefur ákveðið að selja einkaþotu fjölskyldunnar „af augljósum ástæðum.“ Þetta kemur fram í þýskum fjölmiðlum. Schumacher er nú á endurhæfingarmiðstöð í Lausanne í Sviss eftir að hafa vaknað úr dái í síðasta mánuði.

Er Schumacher nú farinn að eiga samskipti við fjölskylduna sína með því að blikka augunum og að sögn svissneskra fjölmiða er von á því að hann fái að fara heim til sín strax í næsta mánuði. 

Þotuna notaði ökumaðurinn til þess að fljúga á milli myndataka, kappakstra og í fjölskyldufrí. Hún er af gerðinni Falcon 2000EX og var hún merkt einkennisstöfunum MS. Á hátindi ferils síns er talið að hann hafi flogið um 400 klukkustundir á ári en þotan kostaði á sínum tíma um 25 milljónir evra. Hún er nú til sölu á um 20 milljónir. 

Schumacher-fjölskyldan býr um 240 kílómetrum frá núverandi dvalarstað hans í Lausanne og er talið að búið sé að breyta húsnæðinu svo hún henti undir núverandi þarfir Michaels. Hann er enn lamaður en talið er að eftir örfáar vikur muni hann geta ekið um á rafknúnum hjólastól sem hann mun stýra með munnstykki. 

Sjá frétt The Telegraph

mbl.is/AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert