Veður grandaði líklega vélinni

Innanríkisráðherra Frakklands sagði í morgun að líkur bendi til þess að farþegaflugvél Air Algerie, með 116 manns um borð, hafi hrapað vegna slæms veðurs. Flak vélarinnar fannst í gær í Sahara-eyðimörkinni í Malí.

„Við teljum að flugvélin hafi brotlend af ástæðum sem rekja má til veðurfarslegra aðstæðna,“ sagði ráðherrann, Bernard Cazeneuve, í viðtali við RTL útvarpsstöðina í Frakklandi í morgun. Vélinni er sögð hafa verið í góðu ástandi og stóðst hún skoðun fyrr í vikunni. Ekki löngu áður en hún hvarf af ratsjám hafði vélinni verið snúið lítillega af leið, vegna ókyrrðar í veðri.

Hann tók þó fram að þetta væri aðeins kenning sem eftir ætti að sannreyna. Stjórnvöld útiloki ekki að aðrar ástæður kunni að vera að baki hrapinu.

51 Frakki var um borð í vélinni, sem var á leið frá Burkína Faso til Alsír þegar hrapaði.

Flugvél AH5017 frá Air Algerie hrapaði yfir Malí í gær.
Flugvél AH5017 frá Air Algerie hrapaði yfir Malí í gær.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert