Tala látinna hækkar enn

AFP

Íbúar á Gaza-svæðinu hafa notfært sér tólf klukkutíma vopnahléið, sem ísraelsk stjórnvöld og Hamas-samtökin náðu samkomulagi um í gærkvöldi, til að snúa aftur heim til sín, safna nauðsynlegum birgðum og leita að vinum og nákomnum ættingjum í húsarústum.

Alls hafa 85 lík fundist í morgun í húsum sem Ísraelsher lagði í rúst í nótt. Þar á meðal féllu að minnsta kosti nítján manns úr einni og sömu fjölskyldunni í loftárás ísraelska hersins í bænum Khan Younis. Allt voru það Palestínumen.

Tala látinna Palestínumanna hefur því farið ört hækkandi og segir í frétt AFP að nú sé talið að 985 Palestínumenn hafi látið lífið í átökunum, sem hófust fyrir tæpum þremur vikum. 39 Ísraelsmenn eru látnir.

Eins og kunnugt er tók tólf klukkutíma vopnahlé í gildi klukkan fimm í morgun. Viðræður deiluaðila um lengra og jafnvel varanlegt vopnahlé standa enn yfir í París, höfuðborg Frakklands. John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, er einmitt staddur þar. Hann hefur fundað með utanríkisráðherrum nokkurra Evrópuríkja í dag um möguleikana á því að koma á vopnahléi á Vesturbakkanum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert