Kóalabjörn lifði af svaðilför

Kóalabirnir.
Kóalabirnir. AFP

Kóalabjörninn Timberwolf er heppinn að vera á lífi. Hann lifði af 88 kílómetra ferðalag fastur undir bíl á hraðbraut í Ástralíu.

Timberwolf er fjögurra ára gamall og slapp vel frá atvikinu með aðeins eina brotna kló. Bíllinn hafði ekið yfir björninn nálægt Maryborough í Queensland. Fjölskyldan sem var í bílnum varð einskis vör. Timberwolf hafði gripið traustataki í bílinn og náði að hanga fastur alla leiðina. Er fjölskyldan áttaði sig á því að einn auka farþegi væri með í för hringdi hún á dýraspítala eftir hjálp. 

Dýralæknirinn Claude Lacasse segir með ólíkindum að kóalabjörninn, sem björgunarfólkið gaf nafnið Timberwolf, hefði ekki slasast. 

„Það er algjörlega ótrúlegt að hann hafi aðeins hlotið minniháttar meiðsl og lifað þetta af,“ segir Lacasse. „Þetta er einstök saga, hann er heppinn kóalabjörn.“

Timberwolf fékk verkjalyf og er nú að jafna sig á áfallinu í dýragarði norður af Brisbane. Til stendur að koma honum aftur út í sitt náttúrulega umhverfi þegar hann hefur jafnað sig.

Í hverjum mánuði er um sjötíu kóalabjörnum komið á dýraspítala í Ástralíu sem krókódílamaðurinn Steve Irwin stofnaði. Flestir hafa þeir orðið fyrir bíl.

Talið er að um 10 milljónir kóalabjarna hafi verið í Ástralíu áður en Bretar settust þar að árið 1788. Í dag er talið að þeir séu um 43 þúsund. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert