Myrtar eftir ásakanir um guðlast á Facebook

Hópur fólks í Palestínu kveiktí í húsum einstaklinga sem þeir …
Hópur fólks í Palestínu kveiktí í húsum einstaklinga sem þeir álitu villitrúarmenn. AFP

Hópur fólks í Pakistan myrti konu sem tilheyrði sértrúarsöfnuði og tvær ungar stelpur, sem voru barnabörn hennar. Þetta gerðist í kjölfar þess að meðlimur sértrúarsafnaðarins var sakaður um að hafa sett inn efni tengt guðlasti á Facebook. Að sögn lögreglu á svæðinu er þetta nýjasta dæmi þess efnis að ofbeldi gagnvart minnihlutahópum í Pakistan sé að aukast.

Konan og stúlkurnar tvær voru Ahmadis, sem telja sig vera múslima en trúa á spámann eftir Múhameð. Lög í Pakistan frá árinu 1984 skilgreina hópinn ekki sem múslima og margir Pakistanar líta á trúarhópinn sem villitrúarfólk.

Að sögn lögreglu byrjuðu áflog á milli tveggja ungra manna, einn þeirra var Ahmadi, sakaður um að hafa sett hneykslanlegt efni inn á Facebook.

„Síðan komu 150 manns á lögreglustöðina sem kröfðust þess að höfðað yrði mál tengt guðlasti gegn ákærða,“ sagði lögregluþjónn sem vildi ekki koma fram undir nafni.

„Á meðan lögreglan var að ræða við hópinn fór annar hópur og brenndi hús einstaklinga sem teljast til Ahmadis.

Árásarmennirnir fóru um, rændu og rupluðu og tóku hvaða verðmæti sem þeir komust í. Þeir drógu húsgögn og kveiktu í þeim. Margir lögreglumenn mættu á svæðið en þeir stóðu á hliðarlínunni og gerðu ekki neitt,“ sagði Munawar Ahmed, en hann keyrði hrædda íbúa í öruggt skjól þegar múgæsingurinn hófst.

Salim ud Din, talsmaður fyrir Ahmadi samfélagið, sagði að þetta væru verstu árásir á samfélagið frá því að 86 meðlimir samfélagsins voru myrtir fyrir fjórum árum síðan.

Samkvæmt pakistönskum lögum eru þeir sem tilheyra Ahmadi bannaðir frá samkomum múslima. Þá er þeim bannað að fara með bænir múslima og mega ekki kalla hof sitt mosku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert