Skola kattakjöti niður með bjór

Snakk sem kallað er „litlir tígrar“ í Víetnam nýtur vaxandi vinsælda. Snakkinu er skolað niður með bjór. Þessar auknu vinsældir hræða þó kattaeigendur, því í snakkið er notað kattakjöt og þjófar stela köttum á götum úti og selja þá sem hráefni í „litla tígra“. Bannað er að borða ketti í Víetnam.

Á veitingahúsi við hlið bílaþvottastöðvar í Hanoi eru kettir á matseðlinum. Þeim er drekkt, þeir rakaðir og svo brenndir til að ná öllum hárum af skrokknum. Svo eru þeir skornir niður og steiktir með hvítlauk.

„Margir borða kattakjöt. Þetta er nýlunda. Fólk vill prófa þetta,“ segir To Van Dung, eigandi veitingastaðarins.

Stjórnvöld í Víetnam hafa bannað kattaát. Þau hafa ítrekað að kettir séu þarfaþing í borgunum til að halda rottustofninum í skefjum.

Engu að síður eru enn margir veitingastaðir sem bjóða upp á kattakjöt, aðallega í höfuðborginni Hanoi. Ekki eru heldur margir kettir á stjái á götum borgarinnar. Gæludýraeigendur halda köttum sínum innandyra vegna ótta um að þeir verði veiddir og drepnir.

Svo mikil eftirspurn er eftir kattakjöti að stundum er þeim smyglað frá Taílandi og Laos til Víetnam.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert