Hundruð myndaðar á salerninu

AFP

Talið er að hundruð kvenna sem nýttu sér salernisaðstöðu í háskólanum í Delaware hafi orðið fyrir barðinu á óprúttnum manni sem hafði þar komið fyrir myndbandsupptökuvélum. Meira en 1.500 upptökur fundust í fórum mannsins og spönnuðu þær um tveggja ára tímabil.

Lögregla greindi frá því á föstudag að 1. júlí síðastliðinn hefði Javier Mendiola-Soto, 38 ára mexíkóskur nemandi við skólann, verið handtekinn vegna myndbandsupptökuvéla sem fundust á salernum kvenna á háskólasvæðinu.

Mendiola-Soto tók konurnar upp á tímabilinu frá maí 2012 til júní 2014, á fimm salernum á háskólasvæðinu. Öllum þeim sem telja sig hafa orðið fyrir barðinu á honum hefur verið boðin áfallahjálp. „Við gerum okkur grein fyrir því að þær hafa orðið fyrir áfalli og við rannsóknina er unnið af eins mikilli nærgætni og hugsast getur,“ segir Skip Homiak hjá háskólanum. 

Komið hefur verið upp sérstöku símaveri fyrir konur í háskólanum og geta þær komið myndum af sér til rannsakenda til að athuga hvort þær séu á upptökum Mendiola-Soto.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert