Ísraelsmenn gefa ekkert eftir

Yfir 100 Palestínumenn eru sagðir hafa verið drepnir á Gaza í dag, en Ísraelsher hefur látið sprengjum rigna yfir svæðið og varar við því að þeir séu búnir undir langvarandi hernað. Stjórnvöld í Palestínu og Hamas-hreyfingin eru sögð reiðubúin að íhuga sólarhrings vopnahlé.

Meðal skotmarka Ísraelsmanna í nótt var eina raforkuverið á Gaza, þar sem eldar loguðu í morgun og er útlit fyrir að rafmagn verði af enn skornara skammti en verið hefur. Yfir 60 sprengjum hefur verið varpað á Gaza í dag og hefur BBC eftir talsmanni Ísraelshers að það sé til marks um stigvaxandi þrýsting sem settur verði á Hamas-hreyfinguna.

53 Ísraelsmenn eru fallnir síðan hernaðurinn hófst undir vinnuheitinu „Protective Edge“. Flestir þeirra eru hermenn. Í Palestínu hafa yfir 1100 manns látið lífið, meirihlutinn almennir borgarar að sögn Sameinuðu þjóðanna. Ban Ki-moon framkvæmdastjóri SÞ sagði í gær að ofbeldinu verði að linna, í nafni mannúðar.

24 klukkustunda vopnahlé af mannúðarástæðum

Benjamín Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, hafði þau orð hinsvegar að engu en lýsti því þess í stað yfir í sjónvarpsávarpi í gærkvöldi að afvopna verði íbúa Gaza með öllu, Ísrael til verndar. „Við munum ekki hætta aðgerðum án þess að eyðileggja öll göng, sem hafa þann tilgang einan að eyða borgurum okkar, drepa börnin okkar,“ sagði Netanyahu. Hann varaði við því að „baráttan“ yrði langvarandi.

BBC segir frá því í dag að æðstiklerkur Írans, Ayatollah Ali Khamenei, saki Ísraelsmenn um að haga sér „eins og hundur með hundaæði“ og skori á múslima um allan heim að sjá Palestínumönnum fyrir vopnum svo þeir geti varið sig gegn þjóðarmorði.

Yfirmaður Frelsishreyfingar Palestínumanna (PLO), Yasser Abed Rabbo, sagði í dag að eftir ýtarlegar viðræður við leiðtoga Hamas- og Islamic Jihad-hreyfinganna, lýsi yfirvöld í Palestínu yfir vilja allra aðila til að koma á vopnahléi af mannúðarástæðum í 24 klukkustundir.

„Við skorum á araba og alþjóðasamfélagið að styðja þetta og lýstum Ísraelsmenn ábyrga fyrir afleiðingunum hafni þeir því,“ sagði Rabbo í yfirlýsingu.

Eldar loga í eina raforkuveri Gaza eftir loftárás Ísraelshers í …
Eldar loga í eina raforkuveri Gaza eftir loftárás Ísraelshers í nótt. AFP
Líkpokar á Khan Yunis-sjúkrahúsinu í suðurhluta Gaza eftir loftárásir næturinnar.
Líkpokar á Khan Yunis-sjúkrahúsinu í suðurhluta Gaza eftir loftárásir næturinnar. AFP
Yasser Abed Rabbo, framkvæmdastjóri Frelsishreyfingar Palestínumanna (PLO), lýsti í dag …
Yasser Abed Rabbo, framkvæmdastjóri Frelsishreyfingar Palestínumanna (PLO), lýsti í dag yfir sameiginlegum vilja PLO, Hamas og Islamic Jihad til sólarhrings vopnahlés af mannúðarástæðum. AFP
Palestínskt barn og ungur karlmaður sem særðust í loftárás bíða …
Palestínskt barn og ungur karlmaður sem særðust í loftárás bíða fyrir utan Khan Yunis-sjúkrahúsið í suðurhluta Gazastrandarinnar í dag. AFP
Palestínskar konur syrgja 5 ára gamla stúlku, Rana Duheir, sem …
Palestínskar konur syrgja 5 ára gamla stúlku, Rana Duheir, sem var drepin í loftárás Ísraelshers í nótt. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert