Saklaus í fangelsi í 21 ár

Fangelsi - Kenneth Ireland sat 21 ár í fangelsi þar …
Fangelsi - Kenneth Ireland sat 21 ár í fangelsi þar til sakleysi hans var sannað með nýlegri DNA tækni. AFP

Maður sem sat saklaus í fangelsi í 21 ár fyrir morð og nauðgun á nú að bera vitni í réttarhöldum í Connecticut, Bandaríkjunum, til að hægt sé að ákveða hversu háar skaðabætur til hans eigi að vera. 

Maðurinn, Kenneth Ireland, var vistaður í fangelsi 18 ára gamall og látinn laus árið 2009, þá 39 ára gamall, eftir að DNA rannsóknir sönnuðu sakleysi hans. Réttarhöldin standa nú yfir og eru þetta í fyrsta skiptið þar sem meint tilfelli um rangan dóm ratar á borð ríkisbótanefndar í fylkinu, segir lögfræðingur Irelands.

Í bótakröfu sinni segist Ireland hafa misst af tækifærinu til að mennta sig, vinna fyrir sér, giftast og ala upp fjölskyldu. Stimplaður sem kynferðisbrotamaður segist hann jafnframt hafa þurft að þola ofbeldi af höndum annarra fanga, sem varð m.a. til þess að hann missti hluta af fingri. Saksóknari kveðst ekki andmæla bótakröfu Irelands.

Ireland var dæmdur árið 1989 fyrir morð á Barbara Pelkey, sem var fjögurra barna móðir. Árið 2007 tók stofnunin Connecticut Innocence Project mál hans til skoðunar, en því er ætlað að rannsaka betur mál sem talið er að gætu verið ranglega dæmd. Morðinginn reyndist vera maður að nafni Kevin Benefield, en nýleg DNA greiningartækni tengdi sýni af munnvatni Benefields við morðið, samkvæmt lögreglu. Benefield var dæmdur til 60 ára fangelsisvistar árið 2012 eftir að þetta hafði komist í ljós.

Frá þessu greinir fréttasíða Yahoo.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert