Börn létust í árás í Sýrlandi

Átökin í Sýrlandi hafa staðið yfir í þrjú ár og …
Átökin í Sýrlandi hafa staðið yfir í þrjú ár og kostað tugþúsundir lífið. AFP

Tólf létust, þar á meðal barn, í árás sýrlenska hersins í bænum Douma í Sýrlandi í kvöld. 

Að sögn mannréttindasamtaka í Sýrlandi voru konur og eitt barn á meðal látinna. Þá særðust tugir manna í árásinni, þar á meðal nokkur börn.

Stjórnarherinn hefur setið um bæinn, sem er í nágrenni Damascus, í meira en eitt ár. Ljósmyndari AFP fréttastofunnar í Douma sagði að árás hefði meðal annars verið gerð á markaðstorg í bænum. „Skothríðin hófst skyndilega. Eina mínútuna voru börn að leika sér á markaðnum en þá næstu lágu líkamspartar og sært fólk út um allt,“ sagði hann.

Þá lýsti hann skelfilegum aðstæðum á illa búnum spítölum. „Það var búið um hina særðu á gólfinu,“ sagði hann og bætti við að 28 særð börn hefðu verið á spítalanum. Sum barnanna lágu í blóðpollum á gólfinu. 

Á myndbandi sem tekið var upp á sjúkrahúsi og aðgerðarsinnar í Douma dreifðu má sjá nokkur alvarlega særð börn, föt þeirra útötuð blóði og sum þeirra liggjandi á gólfinu á yfirfullum spítalanum.

Yfir 170 þúsund manns hafa látið lífið í Sýrlandi frá því átökin hófust fyrir þremur árum síðan og um hálf þjóðin hefur neyðst til þess að yfirgefa heimili sín.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert