Stúlkan sem leitaði skjóls í Svíþjóð

Yara al-Najjar.
Yara al-Najjar. Skjáskot af Expressen.

Foreldrar hinnar átta ára gömlu Yöru sem fannst látin á heimili móðurbróður hennar og konu hans í Karlskrona í Svíþjóð í apríl á þessu ári bíða þess enn að rannsókn málsins ljúki. Stúlkan var jarðsett í Svíþjóð í lok maí. Yara var frá Palestínu en dvaldi hjá ættingjum sínum sem nú eru grunaðir um að hafa valdið dauða hennar.

Lögregla, lögmenn og túlkur bíða þess nú að geta farið til Gaza til að yfirheyra móður stúlkunnar en á meðan átök standa þar yfir fara þau ekki fet.

Þegar hver sprengjan á fætur annarri skall á Gaza árið 2012 ákváðu foreldrar Yöru al-Najjar að senda hana til Svíþjóðar, þar yrði hún öruggari og lifði betra lífi. Annað átti þó eftir að koma í ljós.

Hver brást stúlkunni?

mbl.is fjallaði um andlát hennar í vor en þar kom meðal annars fram að stúlkan hefði verið illa klædd, bláir marblettir hefðu verið algeng sjón á líkama hennar og þá var hún oft ein á ferð með lítil börn sem hún átti að gæta.

Svo virðist sem nágranna hennar, vegfarendur, starfsfólkr skólans og fleiri hafi grunað að stúlkan byggi við slæmar aðstæður en félagsþjónustan, lögreglan og jafnvel fleiri hafi brugðist henni. 

Eftir andlát Yöru kom í ljós að fax, þar sem kom fram grunur að hún hefði verið beitt ofbeldi á heimili sínu í Karlskrona, hefði legið ósnert hjá félagsþjónustunni í tvær vikur. 45 ára lögreglumaður hefur verið yfirheyrður í tengslum við málið og er hann grunaður um vanrækslu í starfi. 

Stal úr verslun og gætti ein yngri barna

Í mars árið 2013 barst félagsþjónustunni í Karlskrona tilkynning um að þrjú börn væru ein heima í íbúð á svæðinu, en það voru Yara og frændsystkini hennar. Móðurbróðir hennar og eiginkona hans voru ekki heima. Starfsmaður fór til barnanna en foreldrarnir komu fljótlega heim.

Um haustið barst lögreglu tilkynning um að Yara gætti tveggja yngri barna í íbúðinni. Nágranni sagðist hafa séð bleyjur og mikið rusl inni íbúðinni en börnin væru ein heima. Lögregla og starfsmaður félagsþjónustunnar fóru í íbúðina en ekki var gripið til aðgerða. Um svipað leyti barst skóla Yöru tilkynning um að hún væri illa klædd í köldu veðri í nóvember.

Um veturinn reyndi stúlkan nokkrum sinnum að stela rískökum í matvöruverslun. Verslunarstjórinn hafði samband við skóla Yöru, lýsti yfir áhyggjum og fékk þau svör að upplýsingunum yrði komið áfram. Kennari Yöru ræddi við stúlkuna. 

Eru skólabörn barin í Svíþjóð?

Foreldrar Yöru ræddu við starfsfólk skólans í gegnum Skype í lok janúar á þessu ári. Móðir hennar spurði meðal annars hvort það tíðkaðist að berja börn í sænskum skólum, áhyggjufull vegna marbletta dóttur sinnar. Foreldrar Yöru fengu aftur á móti þau svör að hún hefði það gott í skólanum. 

Upp úr miðjum febrúar mætti Yara sjaldnar í skólann. Kennari heimsótti hana, frænda hennar og konu hans þann 11. mars og hafði samband við félagsþjónustuna í framhaldinu. Svo virðist sem ekki hafi verið gripið til aðgerða, þrátt fyrir áhyggjur kennarans. Aftur kom starfsmaður skólans í heimsókn en nú fékk hann ekki að hitta Yöru þar sem hún var sögð liggja í rúminu með flensu.

Dökkur marblettur í andliti vakti athygli

Þann 4. apríl tók kennari Yöru eftir því að hún var lasleg og hafði ekki matarlyst. Skólastjórinn hafði nokkrum sinnum samband við félagsþjónustuna. Þann 18. apríl hafði kona samband við við lögregluna.

Hún hafði rekið augun í Yöru sem var á ferð utandyra án yfirhafnar og þá var hún heldur ekki í skóm. Dökkur marblettur í andliti litlu stúlkunnar vakti sérstaklega athygli konunnar.

Lögreglan sendi fax til félagsmálayfirvalda með upplýsingum þar sem kom fram að grunur léki á að um heimilisofbeldi væri að ræða. Þar beið faxið í marga daga og einn daginn var svo Yara látin.

Þann 31. apríl mætti nágranni Yöru í stigaganginum og sagði hann í samtali við Aftonbladet að hann hefði verið ánægður að sjá hana en hún hefði litið betur út en oft áður. Um kvöldið heyrðu nágrannar aftur á móti grunsamleg hljóð frá íbúðinni. Rétt fyrir klukkan tíu hringdi kona móðurbróður Yöru á sjúkrabíl og þegar lögregla kom á vettvang var stúlkan látin. 

Umfjöllun Aftonbladet

Yara var aðeins átta ára.
Yara var aðeins átta ára. Skjáskot af Expressen
Frá Karlskrona í Suður-Svíþjóð.
Frá Karlskrona í Suður-Svíþjóð. mbl.is/wikipedia
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert