Hundruð sakfellinga í hættu

mbl.is

Vafi ríkir nú um hundruð sakfellinga eftir að æðsti dómstóll Kanada komst í dag að þeirri niðurstöðu að aðferðir lögreglu við að knýja fram játningar undir fölskum forsendum væru ólöglegar.

Málið er fór fyrir dómstólinn varðaði mann sem dæmdur var fyrir að myrða tvíburadætur sínar. Maðurinn játaði á sig morðin við lögreglumann í dulargerfi mafíu-stjóra. Að líkum þarf nú að rétta yfir manninum að nýju en lögmenn hans sögðu við fjölmiðla í dag að án játningarinnar þyrfti að láta hann lausan.

Dómstóllinn sagði að misneyting gæti falist í slíkum aðferðum og hætta væri á að játningarnar væru óáreiðanlegar. Í dóminum sagði að jafnvægi þyrfti að ríkja á milli réttar sakaðs manns til réttlátrar málsmeðferðar annars vegar og hins vegar nauðsyn þess að lögregla nái að upplýsa sakamál.

Fengu hann til liðs við tilbúin glæpasamtök

Tvíburastelpunum var drekkt í ágúst árið 2000 en játningin var knúin fram árið 2002. Grunur féll fljótlega á föðurinn en lögregla hafði þó ekki næg sönnunargögn í höndunum. Þá var farin sú leið að lögreglumenn í dulargervi fengu manninn til liðs við tilbúin glæpasamtök og komu loks á fundi með mafíósanum þar sem hann játaði á sig morðin.

Dómstóllinn sagði játninguna ótrúverðuga þar sem maðurinn hefði verið atvinnulaus og félagslega einangraður á þeim tíma og gæti hann hafa sagt hvað sem er til þess að ganga í augu mafíósans og öðlast þannig traust annarra félagsmanna.

Lögreglan í Kanada hóf að nota slíkar aðferðir á tíunda áratug síðustu aldar og að sögn yfirvalda hafa þær verið notaðar í yfir 350 málinum frá árinu 2008 og leitt til hundruð sakfellinga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert