Samkvæmt upplýsingum frá NATO hefur rússneski herinn nú komið sér fyrir við austurhluta landamæra Rússlands og Úkraínu. Talið er að allt að 20 þúsund manns séu á vegum hersins við landamærin.
Samkvæmt tímaritinu TIME óttast NATO að þetta þýði að Rússar séu að undirbúa sig fyrir innrás í Úkraínu, en hersveitirnar samanstanda m.a. af skriðdrekum, fótgönguliði, stórskotaliði, flughernaðarkerfum og sérsveitum.
„Við ætlum ekki að giska á hvað Rússar eru að hugsa en við getum séð hvað þeir eru að gera, og það veldur okkur áhyggjum,“ sagði talskona NATO, Oana Lungescu, í yfirlýsingu. Hún sagði jafnframt að NATO óttist að Rússar notfæri sér hugtakið „friðargæslu“ sem fyrirslátt til þess að senda hersveitir til Austur-Úkraínu.
Fyrr á þessu ári söfnuðust saman um 40 þúsund rússneskir hermenn við landamæri Rússlands og Úkraínu. Það minnkaði þó fljótlega niður í þúsund hermenn.
Uppfært kl. 15:07
Rússar hafa nú neitað ásökunum NATO í yfirlýsingu sem birtist í dag. Talsmaður varnarmálaráðuneytis landsins sagði að ekki væri mögulegt fyrir rússneska herinn að koma svona mörgum hermönnum á svæðið á svo stuttum tíma.
Jafnframt sagði hann varnarmálaráðuneytið væri nú að íhuga að notast við samfélagsmiðla til þess að sýna umheiminum „starfsemi rússneska hersins við landamærin á hlutlausan hátt.“