Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) hóf í dag tveggja daga neyðarfund um ebóla-faraldurinn í Vestur-Afríku. Fundurinn fer fram fyrir luktum dyrum í Genf í Sviss. Síðast þegar slíkur fundur var haldinn var það vegna H1N1 inflúensufaraldursins árið 2009.
Markmið fundarins mun m.a. vera að skera úr um hvort útbreiðsla vírussins sé orðin slík að hún verði skilgreind sem neyðarástand sem varði almenning á heimsvísu.
Á fundinum koma saman bæði fulltrúar þeirra landa sem verst hafa orðið úti, æðstu menn WHO og helstu sérfræðingar heims. Niðurstaða fundarins verður að líkindum ekki gerð opinber fyrr en á föstudag.
WHO hefur enn sem komið er ekki talið ástæðu til að gefa út tilmæli um ferða- og viðskiptatakmarkanir á heimsvísu vegna ebóla-faraldursins. Enn sem komið er hefur faraldurinn verið bundinn við Gíneu, Líberíu, Síerra Leóne, og nú síðast Nígeríu. Alls hafa yfir 1.600 manns smitast og þar af 887 látið lífið vegna veirunnar. Hlutfall látinna er því 55% í þessum faraldri, en verstu afbrigði ebóla-veirunnar hafa dregið allt að 90% þeirra sem veikjast til dauða.
Flest eru dauðsföllin í Gíneu, en þar virðist nú hafa hægst á útbreiðslu faraldursins, á meðan ástandið fer versnandi í nágrannalöndunum Líberíu og Síerra Leóne.