Múruðu nágranna sína inni

Robert Dunlop undir stýri á sendibíl sínum, en hann lagði …
Robert Dunlop undir stýri á sendibíl sínum, en hann lagði honum reglulega við útidyr húss Dyson hjónanna. AFP

Draumur bresku hjónanna Faith og John Dyson um notaleg elliár í Frakklandi snerust upp í hreina martröð þegar nágrannar þeirra múruðu þau inni í húsi sínu eftir illdeilur. Hjónin, sem eru á áttræðisaldri, fluttust búferlum þegar þau komust á eftirlaun árið 2004 og fjárfestu í litlu húsi í bænum Brugairolles.

Negldu hlerana fasta

Dunlop hjónin, sem einnig koma frá Bretlandi, fluttu í næsta hús ári seinna. Þau voru kurteis og komu vel fram í fyrstu en fylltust hins vegar gríðarlegri heift vegna notkunar Dyson hjónanna á göngustíg sem þau töldu sig eiga og tóku því til sinna ráða.

Dunlop hjónin áreittu nágranna sína sífellt og nýttu hvert tækifæri til að bregða fyrir þau fæti. Fyrst um sinn lögðu þau stórum sendibíl sínum reglulega fyrir framan aðaldyr húss Dyson hjónanna þannig að þau komust hvorki inn né út og þurftu að notast við bakdyrnar. Nágrannarnir gengu síðan lengra og negldu hlerana fyrir gluggum hússins fasta þannig að þá var ekki hægt að opna og komu fyrir girðingu við aðaldyrnar.

Byggðu háan múrsteinsvegg

Í síðustu viku tóku Dunlop hjónin sig síðan til meðan Dyson hjónin voru úti að sinna erindum og byrjuðu að byggja vegg úr múrsteinum við húsvegginn sem náði upp að annarri hæð hússins.

Þegar þarna var komið við sögu þótti öðrum bæjarbúum nóg komið og söfnuðu þeir liði til að aðstoða Dyson hjónin. Hópurinn safnaðist saman fyrir utan hús Dunlop hjónanna, blístraði og hrópaði í mótmælaskyni. Sýslumaðurinn á svæðinu var kallaður til og þegar hann hafði virt fyrir sér verksummerki tók fólkið til við að rífa niður vegginn og hlerana.

„Ég er heyrnarlaus“

„Ég á engin orð yfir fólk eins og Dunlop hjónin, sem neyða nágranna sína til að búa í algjöru myrkri,“ sagði nágranninn  Jeannot Gach. Bæjarstjórinn Alain Labattut sagði Dyson hjónin vera vinsæl meðal bæjarbúa, en það ætti hins vegar ekki við Dunlop hjónin sem sífellt stæðu í illdeilum við aðra íbúa. Dunlop hjónin neituðu bæði að tala við fjölmiðlamenn þegar mótmælin við hús þeirra stóðu sem hæst, en eiginmaðurinn Robert Dunlop hrópaði hins vegar í sífellu „Ég heyri ekki hvað þið segið, ég er heyrnarlaus“.

Dyson hjónin.
Dyson hjónin. AFP
Hús Dunlop hjónanna, þar sem bæjarbúar mótmæltu hástöfum illri meðferð …
Hús Dunlop hjónanna, þar sem bæjarbúar mótmæltu hástöfum illri meðferð þeirra á nágrönnum sínum, Dyson hjónunum. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert