Segir stúlkurnar vera í Tsjetsjeníu

Systurnar Somaja og Rajana eru í Tsjetsjeníu að sögn föður …
Systurnar Somaja og Rajana eru í Tsjetsjeníu að sögn föður þeirra.

Faðir tveggja systra, sem er sakaður um að hafa numið þær á brott í Noregi í júní, hefur gefið sig fram við lögreglu. Hann segir að dætur hans séu í heimalandi hans,  Tsjetsjeníu.

Mans­ur Mahashev, faðir stúlknanna tveggja Som­aja og Raj­ana, gaf sig fram á lögreglustöðinni í Kongs­vin­ger í Aust­ur­mörk í morgun. 

Stúlk­un­um, sem eru 6 og 8 ára gaml­ar, var rænt af tveim­ur grímu­klædd­um mönn­um á leiðinni heim úr skóla þann 10. júní, en þeim hafði verið komið í fóstur af barnaverndaryfirvöldum þar sem blóðforeldrar þeirra voru sakaðir um vanrækslu. Mahashev hefur verið leitað síðan en fullvíst þótti strax að hann hafi verið meðal þeirra sem rændi þeim. Hann segist hafa farið um alla Evrópu undanfarna mánuði án nokkurra vandkvæða þrátt fyrir að vera eftirlýstur, samkvæmt fréttum VG og Aftenposten.

Í júlí úrskurðaði héraðsdómstóll að stúlkurnar ættu heima hjá blóðforeldrum sínum þar sem þau hefðu ekki gerst sek um þá vanrækslu sem þau voru sökuð um. Faðirinn er því ekki lengur sakaður um barnsrán heldur ólögmæta frelsissviptingu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert