Hættulegasti staður í heimi

Alls er um tuttugu blaðamanna saknað í Sýrlandi, samkvæmt upplýsingum frá bandarískum fjölmiðlasamtökum. Þeim fækkaði hins vegar um einn í vikunni þegar myndskeið af aftöku bandaríska blaðamannsins James Foley var birt á þriðjudag. 

Á vef samtakanna Committee to Protect Journalists kemur fram að Sýrland sé hættulegasti staðurinn fyrir blaðamenn að starfa á um þessar mundir. Blaðamenn hafa sætt ofsóknum þar í landi allt frá því borgarastyrjöldin braust þar út, þeim rænt, þeir pyntaðir og jafnvel myrtir. Skæruliðasamtökin Ríki íslam, sem eru samtök sem spruttu út úr Al-Qaeda, hafa þar farið fremst í flokki. Það hefur nú fengist staðfest að Ríki íslam ber ábyrgð á morðinu á Foley.

Aðstoðarframkvæmdastjóri Committee to Protect Journalists, Robert Mahoney, segir að sýrlenskir og útlenskir blaðamenn hafi vitað það um nokkurt skeið að Sýrland væri hættulegasti staðurinn fyrir blaðamenn að starfa á. Nú með morðinu á Foleyer það orðið almenn vitneskja.

Hugrakkur og óþreytandi blaðamaður

 Morðið á Foley hefur vakið hörð viðbrögð um heim allan en samtökin Ríki íslam beita ofbeldi og þvingunum til þess að þagga niður í allri sjálfstæðri blaðamennsku á svæðinu sem þau stýra. Því það er ekki bara Foley sem hefur látist vegna starfs síns, að miðla fréttum um átökin í Sýrlandi, heldur 69 aðrir blaðamenn. 

Bandaríska blaðamanninum James Foley hefur verið lýst sem hugrökkum og óþreytandi blaðamanni. 

James Wright Foley fæddist þann 18,. október 1973 og var því fertugur er hann lést. Hann er fæddur í Rochester í New Hampshire og er elstur fimm barna Johns Floeys og Diane Foley. 

Fyrst í kennslu svo í blaðamennsku

Foley útskrifaðist frá Marquette háskólanum árið 1996 og starfaði sem kennari í Arizona, Massachusetts og Chicago að námi loknu. Hann lauk einnig námi í ritlist við Massachussetts Amherst háskólann árið 2003. 

Það var hins vegar um miðjan síðasta áratug að Foley tók stefnuna á blaðamennsku með áherslu á ljósmyndun og lauk námi í blaðamennsku frá Northwestern háskólanum Medill School of Journalism) árið 2008.

Eftir útskrift þaðan hóf hann störf sem blaðamaður og forvitni hans um hvað væri í raun og veru að gerast í Írak leiddi hann til starfa á stríðshrjáðum svæðum Miðausturlanda. Bróðir Foleys var í flugher Bandaríkjanna í Írak á þessum tíma og kemur fram á BBC að störf hans þar hafi ekki síst orðið til þess að forvitni blaðamannsins rak hann á slóðir bandarískra hermanna í Írak. 

Rænt í Líbíu árið 2011

Árið 2011 fór hann til Líbíu til þess að fylgjast með uppreisninni gegn Muammar Gaddafi einræðisherra. Þar var Foley með uppreisnarmönnum í för og starfaði sjálfstætt fyrir vestræna fjölmiðla, svo sem Global Post og AFP fréttastofuna. 

Í apríl 2011 réðust hermenn Gaddafís á hann og þrjá aðra blaðamenn og var einn þeirra, Anton Hammerl, drepinn. Foley og tveir aðrir voru hins vegar handteknir og fangelsaðir.  „Þegar hermaður þrýstir andliti þínu niður á gólf bifreiðar, það blæðir úr höfði þínu, þetta er eiginlega með verstu áföllum sem þú getur orðið fyrir,“ sagði Foley síðar, samkvæmt BBC.

Í átján daga vissi enginn hvað hafði orðið um hann né heldur hvort hann væri hreinlega á lífi. Foreldar hans börðust fyrir lausn hans, stóðu fyrir bænarstundum og gerðu allt sem í þeirra valdi stóð til þess að fá hann lausan og afla upplýsinga um hvarf hans.

Missti félaga sinn

Eftir sex vikur var Foley látinn laus en dauði Hammerl, vinar hans og starfsfélaga, hafði mikil áhrif á hann. „Ég mun harma þennan dag allt mitt líf. Ég harma það sem kom fyrir Anton,“ sagði hann og bætti  við að hann myndi stöðugt reyna að greina það sem gerðist. En um leið að það hafi ekki haft áhrif á hann að vera tekinn höndum. Heldur hafi það frekar haft þau áhrif að hann hafi tengst ástandinu enn frekar. 

Eftir dvölina í Líbíu var honum mjög í mun að fylgjast með ástandinu í Sýrlandi og sagði að hann sogaðist í átt að þeim stöðum þar sem átök stæðu yfir til þess að reyna að upplýsa um ósagðar sögur heimamanna. 

Hverjir létu Foley í hendur Ríki íslam?

Síðast spurðist til Foleys í nóvember 2012 er honum var rænt ásamt túlki sínum í Idlib héraði í norðvesturhluta Sýrlands. Þá var hann á leiðinni að landamærum Tyrklands, að sögn vitna sem sögðu að þeim hafi verið rænt af  tveimur vopnuðum mönnum sem þvinguðu þá út úr bifreiðinni og tóku þá höndum, að því er Global Post greinir frá. Túlknum var síðar sleppt. 

Á þessum tíma var ekkert vitað um hverjir höfðu rænt honum né heldur hvert var farið með hann. Á þessum tíma höfðu samtökin Ríki íslam ekki verið stofnuð. Það var ekki fyrr en 3. maí 2013, 162 dögum eftir að Foley hvarf, sem einhverjar upplýsingar bárust um hvar hann væri að finna.

Þá birtu bandarískir fjölmiðlar fréttir um að samkvæmt öruggum heimildum þá væri hann í haldi stjórnarhersins í fangelsi í Damaskus. Áður hafði verið talið að liðsmenn Shabiha hefðu rænt honum. En svo virðist sem það hafi verið stjórnvöld í Sýrlandi sem hafi framselt Foley til samtakanna Ríki íslam án þess að það hafi fengist staðfest. Ekki er einu sinni vitað hvar hann var í haldi því í júlí sl. sendu bandarísk stjórnvöld sérsveit til Sýrlands til þess að frelsa bandaríska gísla þar í landi en árangurs. Hvorki fannst tangur né tetur af Foley og öðrum Bandaríkjamönnum í leiðangrinum. 

Enn er ekki vitað hvenær Foley var nákvæmlega tekinn af lífi annað en að aftakan fór nýverið fram. Því ekki eru liðnir margir dagar frá því Bandaríkjaher hóf loftárásir á búðir samtakanna Ríki íslam í Írak. 

Hvað verður um Steven Sotloff?

Myndbandið sem sýnir aftöku Foleys er um fimm mínútur að lengd. Þar sést Foley krjúpa í eyðimörk íklæddur appelsínugulum búning á borð við þá sem fangarnir í Guantanámo-búðunum klæðast. Við hlið hans stendur liðsmaður Ríkis íslams sem hulinn er svörtum klæðum en í myndbandinu, sem er titlað „Skilaboð til Ameríku“, kemur m.a. fram að morðið á Foley sé hefnd fyrir loftárásir Bandaríkjamanna í norðurhluta Írak. Þá hóta samtökin að taka annan blaðamann, Steven Sotloff, sem var rænt í ágúst 2013, af lífi ef árásunum verður ekki hætt. 

Þrátt fyrir aftökuna hefur ekkert lát orðið á loftárásum bandarískra hermanna á búðir Ríki íslam en ekkert er vitað um hvort Sotloff sé enn á lífi eður ei. Sotloff, sem er 31 árs að aldri, var rænt þann 4. ágúst í fyrra skammt frá landamærum Tyrklands. Sotloff hefur meðal annars unnið fyir Time tímaritið,  National InterestMedia Line og Foreign Policy. Meðal landa sem hann hefur starfað í eru Egyptaland, Tyrkland, Líbía, Barein og Sýrland.

Engin miskun sýnd þrátt fyrir bænir 

CNN greinir frá því að þeir sem voru með James Foley í haldi hafi reynt að fá greitt lausnargjald fyrir hann, alls 100 milljónir evra. Þetta er haft eftir Philip Balboni, framkvæmdastjóra GlobalPost á vef Wall Street Journal. Bæði fjölskylda Foleys og GlobalPost hafi verið krafin um fjárhæðina. Balboni hefur neitað tjá sig frekar um málið, hvaða svör mannræningjarnar fengu til að mynda annað en að öllum slíkum kröfum sé komið á framfæri við bandarísk stjórnvöld.

Á CNN kemur fram að þeir sem voru með Foley í haldi hafi byrjað að senda skilaboð til GlobalPost síðasta haust. Skilaboðin hafi ávalt verið stutt - „Þeir lögðu fram kröfur,“ segir Balboni og bætir við að einhver skilaboðanna hafi snúist um peninga en önnur stjórnmál. Það var síðan í síðustu viku sem fjölskylda Foley fékk tölvupóst þar sem kom fram að hann yrði tekinn af lífi. Balboni segir að skilaboðin hafi verið dauðans alvara en þrátt fyrir bænir og vonir hafi samtökin ekki sýnt neina miskunn. Engum skilaboðum fjölskyldunnar var svarað og það næsta sem fjölskyldan vissi var að myndskeiðið af aftökunni var birt. 

Guardian

SvD

Vox

Columbia

James Foley
James Foley AFP
James Foley
James Foley AFP
S
S AFP
AFP
AFP
James Foley
James Foley Af vefnum freejamesfoley.org/
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert