Reyndu að bjarga Foley

James Foley að störfum
James Foley að störfum AFP

Bandaríski herinn reyndi en mistókst að bjarga blaðamanninum James Foley og öðrum bandarískum ríkisborgurum sem var haldið í gíslingu skæruliðahreyfingarinnar Ríkis íslams (IS) í Sýrlandi. 

GlobalPost sagði frá því í gær að það væri niðurstaða bandarísku alríkislögreglunnar að myndband, sem birt var á YouTube á þriðjudag og virðist sýna aftöku blaðamannsins James Foley sem liðsmaður Ríkis íslams framdi, sé ósvikið. Að sögn vitna var Foley rænt í Sýrlandi í nóvember 2012 en hann var sjálfstætt starfandi og hafði m.a. unnið fyrir GlobalPost og AFP. Myndbandið hefur vakið mikinn óhug og verið fordæmt um allan heim og kynt undir því meðal ráðamanna á Vesturlöndum að grípa til frekari aðgerða gegn íslamistunum.

Bandaríska varnarmálaráðuneytið og Hvíta húsið hafa ekki upplýst um hvort leiðangur sérsveitar hersins hafi snúist um að bjarga Foley úr haldi eða hvort markmiðið hafi verið annað. Bandarískir fjölmiðlar hafa eftir háttsettum embættismönnum að tilgangurinn með leiðangrinum sem bandarísk yfirvöld hafa vísað til hafi verið að bjarga Foley og fleiri bandarískum gíslum úr haldi IS.

Liðsmenn IS hafa hótað því að taka annan bandarískan fréttamann, Steven Sotloff, af lífi ef forseti Bandaríkjanna, Barack Obama, stöðvar ekki loftárásir á stöðvar IS í Írak. Sotloff, sem var rænt í ágúst 2013, sést í myndbandinu sem sýnir þegar Foley er afhöfðaður.

Myndbandið er um fimm mínútur að lengd og sýnir Foley krjúpa í eyðimörk íklæddur appelsínugulum búning á borð við þá sem fangarnir í Guantanamo-búðunum klæðast. Við hlið hans stendur liðsmaður Ríkis íslams sem hulinn er svörtum klæðum en í myndbandinu, sem er titlað „Skilaboð til Ameríku“, kemur m.a. fram að morðið á Foley sé hefnd fyrir loftárásir Bandaríkjamanna í norðurhluta Írak. Myndbandið sýnir þegar Foley er afhöfðaður.

Talsmaður bandaríska varnarmálaráðuneytisins, John Kirby, segir í tilkynningu að bandarísk yfirvöld hafi nýlega reynt að bjarga nokkrum bandarískum gíslum sem eru í haldi í Sýrlandi hjá ISIS. Aðgerðin hafi hins vegar mistekist þar sem gíslarnir voru ekki á þeim stað sem talið væri að þeim væri haldið.

Nokkrir tugir sérþjálfaðra hermanna hafi tekið þátt og særðist einn þeirra í skotbardaga við liðsmenn IS, segir í frétt Washington Post. Segir blaðið þetta vera fyrstu aðgerð bandaríska hersins á jörðu niðri í Sýrlandi frá því borgarastyrjöldin braust þar út.

François Hollande forseti Frakklands segir að heimurinn standi frammi fyrir alvarlegu ástandi og því versta síðan árið 2001. Hann hvetur til þess að haldin verði alþjóðleg ráðstefna um hvernig sé hægt að tryggja öryggi Íraka og berjast gegn yfirráðum IS.

Forsætisráðherra Bretlands, David Cameron, batt enda á sumarfrí sitt eftir að fregnir bárust af myndbandinu og boðaði til fundar um hvernig afgreiða ætti Ríki íslams. Svo virðist sem maðurinn sem framkvæmir aftökuna á Foley sé mögulega Breti en á myndbandinu talar hann með breskum hreim. Í Þýskalandi sögðust stjórnvöld reiðubúin til að vopna Kúrda í átökunum gegn Ríki íslams en Amnesty International kallaði aftökuna stríðsglæp.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert