Yfir 191.000 látnir í Sýrlandi

Ungur drengur öskrar af sársauka er læknir fjarlægir sprengjubrot úr …
Ungur drengur öskrar af sársauka er læknir fjarlægir sprengjubrot úr fótlegg hans í Doum, sem er norðaustur af Damaskus, í síðasta mánuði. AFP

Navi Pillay, mannréttindastjóri Sameinuðu þjóðanna, segir að til og með apríl sl. hafi yfir 191.000 látist í átökunum í Sýrlandi. Pillay segir að talan sé varlega áætluð og líklega sé fjöldi fallinna meiri. Pillay gagnrýnir alþjóðasamfélagið harðlega fyrir aðgerðarleysi gagnvart ástandinu.

Tala SÞ yfir látna er tvöfalt hærri en sú tala sem stofnunin birti á sama tíma í fyrra. Þetta kemur fram á vef BBC.

Uppreisnarmenn í Sýrlandi hafa barist við stjórnarhersveitir Bashars al-Assads, forseta Sýrlands, síðastliðin þrjú ár. Stjórnarhersveitirnar hafa sótt í sig veðrið á undanförnum mánuðum og hafa náð fleiri svæðum aftur á sitt vald.

Skýrsla SÞ byggir á upplýsingum frá nokkrum hópum sem hafa eftirlit í landinu og frá sýrlenskum stjórnvöldum sem búið er að yfirfara. 

„Það er sorglegt að þetta er að öllum líkindum vanmat á heildafjölda þeirra sem hafa verið drepnir á fyrstu þremur árum þessara blóðugu stríðsátaka,“ sagði Pillay.

„Morðingjarnir, skemmdarvargarnir og kvalararnir í Sýrlandi hafa styrkst og eflst vegna þess að alþjóðasamfélagið er lamað,“ sagði Pillay.

Mesta mannfallið var í Damaskus-héraði, 39.393 dauðsföll. Næstflestir hafa fallið í Aleppo, 31.932.

Ástandið í Sýrlandi er skelfilegt en stríðsátökin hafa staðið yfir …
Ástandið í Sýrlandi er skelfilegt en stríðsátökin hafa staðið yfir í þrjú ár. AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert