Segja Bandaríkin vera „grafreit mannréttinda“

Kim Jong-Un, leiðtogi Norður-Kóreu, skoðar verksmiðju í heimalandi sínu.
Kim Jong-Un, leiðtogi Norður-Kóreu, skoðar verksmiðju í heimalandi sínu. AFP

Yfirvöld í Norður-Kóreu hafa gagnrýnt kollega sína í Bandaríkjunum harðlega í kjölfar atviksins í bænum Ferguson í Missouri þar sem lögregluþjónn skaut óvopnaða blökkumanninn Michael Brown til bana.

Í yfirlýsingu frá ráðamönnum í utanríkisráðuneyti Norður-Kóreu segir að bandarísk yfirvöld ættu engan rétt á að gagnrýna aðrar þjóðir fyrir mannréttindabrot meðan þau mál væru í miklum ólestri hjá þeim sjálfum.

„Ættu að huga að eigin málum“

„Bandaríkin eru sannarlega land mannréttindabrota þar sem einstaklingar verða fyrir mismunun og niðurlægingu vegna kynþáttar og þurfa sífellt að búa við ótta um að verða fyrir skoti,“ segir í yfirlýsingunni sem birt var af ríkisfréttastofu landsins, KCNA.

„Yfirvöld í Bandaríkjunum ættu ekki að leysa málin með því að bæla niður mótmæli, heldur ættu þau að horfast í augu við raunveruleikann í samfélagi sínu, samfélagi sem er grafreitur mannréttinda. Bandaríkjamenn ættu að huga betur að eigin málum og hætta að skipta sér að innanríkismálum annarra þjóða,“ segir jafnframt.

Fleiri þjóðir leggja orð í belg

Áður hafa yfirvöld í Kína, Íran, Egyptalandi og Rússlandi gagnrýnt Bandaríkjamenn vegna atburðarásarinnar í Ferguson. „Bandaríkjamenn hafa undanfarin ár sett sig í sæti dómara og verjenda mannréttinda í heiminum. Þeir gætu hins vegar litið sér nær og bætt ýmislegt sjálfir,“ segir í yfirlýsingu Kínverja.

Bandarísk yfirvöld hafa reglulega gagnrýnt Norður-Kóreumenn, en talið er að um 120 þúsund pólitískir fangar dvelji þar í fangabúðum, margir hverjir fyrir litlar sem engar sakir. Fjölmargar frásagnir eru einnig til af aftökum og grimmilegum refsingum gagnvart þeim sem reyna að yfirgefa landið, en slíkt er ekki leyfilegt. 

Michael Brown var borinn til grafar á dögunum, en mótmæli …
Michael Brown var borinn til grafar á dögunum, en mótmæli og óeirðir hafa geysað í Ferguson eftir að hann var skotinn til bana. AFP
Styttur og myndir af fyrrum leiðtogunum Kim Il-Sung (til vinstri) …
Styttur og myndir af fyrrum leiðtogunum Kim Il-Sung (til vinstri) og Kim Jong-Il má finna víða í Norður-Kóreu. Sonur hins síðarnefnda er nú við völd. Ljósmynd/Wikipedia
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka