Hafnarsvæði í höndum aðskilnaðarsinna

Hörð átök geisa enn í Úkraínu.
Hörð átök geisa enn í Úkraínu. AFP

Aðskilnaðarsinnar í Úkraínu, sem eru hliðhollir Rússum, hafa náð hafnarsvæðinu í borginni Novoazovsk á sitt vald. Bæjarstjórinn hefur staðfest þetta. Stuðningsmenn uppreisnarmannana hafa fagnað þessu og birt myndir af skriðdrekum sækja fram á samskiptasíðum.

Talsmenn úkraínska hersins segir að stjórnarherinn hafi bæinn algjörlega á sínu valdi, að því er segir á vef breska ríkisútvarpsins.

Undanfarnar vikur hafa aðskilnaðarsinnarnir reynt að brjóta sér leið út til norðurs í Donetsk-héraði, en þar hafa þeir verið umkringdir stjórnarhersveitum. 

Rússnesk stjórnvöld neita því að þau séu með leynd að veita aðskilnaðarsinnum stuðning á jörðu niðri. 

Petro Porosénkó, forseti Úkraínu, hét því áður en átök brutust út á hafnarsvæðinu að leggja fram vegvísi að friði í austurhluta landsins. 

Hann lét ummælin falla í Hvíta-Rússlandi í gær þar sem hann fundaði í fyrsta sinn með Vladimír Pútín, forseta Rússlands, um átökin í Úkraínu. 

Pútín segir að Rússar muni leggja sig fram að stuðla að viðræðum. Það sé hins vegar í höndum Úkraínumanna sjálfra að stöðva stríðsátökin. Rússar neita því að þeir hafi útvegað uppreisnarmönnum vopn og liðsauka. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert