Eggjakast og æsingur á vegum í aðdraganda kosninga í Skotlandi

AFP

Mikill hiti er hlaupinn í kosningabaráttuna í Skotlandi, þar sem Skotar greiða atkvæði um hvort landið kljúfi sig frá Bretlandi og verði sjálfstætt ríki. Kosningarnar fara fram 18. september.

Sjálfstæðissinnar og stuðningsmenn þess að Skotland verði ekki sjálfstætt hreyta fúkyrðum hverjir í aðra, og hafa meira að segja gripið til eggjakasts.

David Cameron sagði að þó svo að mönnum sé heitt í hamsi þá er ekki eðlilegt að menn hendi hlutum hver í annan, eftir að andstæðingur sjálfsstæðis skota varð fyrir eggjakasti.

„Ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar að það eigi ekki að grýta eggjum í fólk,“ sagði Cameron. „Ég lenti í því sjálfur í Cornwall, það var áhugaverð lífsreynsla.“

Fórnarlamb eggjakastsins var Jim Murphy, fyrrverandi Evrópuráðherra og fyrrverandi ráðherra Skotlandsmála í ríkisstjórn Bretlands.

Murphy sagðist ætla að fresta ferðalögum sínum þar sem hann berst fyrir því að Skotland verði áfram hluti af Bretlandi. Hann sakar stuðningsmenn sjálfstæðs Skotlands um að hafa í frammi ógnandi tilburði.

Alex Salmond, einn leiðtoga stuðningsmanna sjálfstæðs Skotlands, segist einnig hafa orðið fyrir aðkasti, en hann segist hafa verið eltur af reiðum ökumanni sem var með „Nei“-merki í bílnum sínum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert