Skaut konu sína sem lá á sjúkrahúsi

Kennedy University spítalinn í Stratford.
Kennedy University spítalinn í Stratford. Philly.com

Maður skaut veika konu sína sem lá á spítala til bana á miðvikudag í Stratford í New Yersey í Bandaríkjunum og reyndi svo að drepa sjálfan sig í kjölfarið. Sonur hjónanna fannst síðar látinn á heimili þeirra og hafði hann einnig verði skotinn. Rannsakað er hvort sama byssa hafi verið notuð til að drepa mæðginin. Þetta kemur fram á fréttaveitunni Yahoo news.

Maðurinn, Raymond Wychowanec, kom á Kennedy háskólasjúkrahúsið í Stratford um klukkan 9.25 á miðvikudag til að heimsækja konu sína. Starfsmenn spítalans segjast ekki hafa heyrt rifrildi eða neitt óvenjulegt frá herbergi konunnar, þar til klukkan 10.10 en þá heyrðust tvö byssuskot. Skotin hæfðu hina 62 ára gömlu Denise Wychowanec.

Þegar starfsmenn spítalans komu inn í herbergið skaut hinn 63 ára gamli Raymond Wychowanec sig. Hann hlaut lífshættuleg sár og var hann fluttur á annan spítala.

Í kjölfar árásarinnar heimsóttu yfirvöld heimili hjónanna og fundu þar 35 ára gamlan son þeirra, Ryan Wychowanec, látinn.

Nágranni segir morðingjann vera góðan mann

Ekki var greint frá því hvers kyns veikindi konan átti við að stríða en nágrannar hjónanna segja hana lengi hafa verið í hjólastól og sjúkrabíla hafa heimsótt heimili þeirra oft að undanförnu.

Laura McCafferty, nágranni hjónanna sem búið hefur í hverfinu í 18 ár, segist ekki hafa hitt mæðginin oft, en segist nokkrum sinnum hafa spjallað við Raymond Wychowanec, og segir honum hafa verið annt um konu sína. „Hann var góður maður,“ segir hún.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert