NATO telur Úkraínuher sigraðan

Uppreisnarmaður úr röðum aðskilnaðarsinna stendur vörð á veginum að flugvellinum …
Uppreisnarmaður úr röðum aðskilnaðarsinna stendur vörð á veginum að flugvellinum í Donetsk í gær. AFP

Uppreisnarmenn í Úkraínu hafa náð flugvellinum í Luhansk á sitt vald og úkraínski herinn bíður hvern ósigurinn á eftir öðrum. Innan Atlantshafsbandalagsins er nú talið að útkoma átakanna í Úkraínu sé ráðin. Yfirburðir sveita Rússa séu slíkir að úkraínski herinn fái ekki rönd við reist.

Á vefsíðu vikuritsins Der Spiegel í dag segir að Atlantshafsbandalagið hafi breytt hernaðarlegu mati sínu á stöðunni í Úkraínu í grundvallaratriðum. Fyrir viku gengu hernaðarsérfræðingar bandalagsins út frá því að Rússar hefðu komið aðskilnaðarsinnum til hjálpar með dulbúnum hersveitum vegna þess að þeir þyrftu að hörfa undan sókn úkraínska hersins, en nú eigi stjórnarherinn sér ekki viðreisnar von.

Þegar herforingjar bandalagsins komu saman til neyðarfundar í lok liðinnar viku var dregin upp dökk mynd af stöðunni. „Hernaðarlega hefur Kænugarður nú þegar tapað átökunum,“ hefur Der Spiegel eftir háttsettum herforingja í NATO. Niðurstaðan hefði verið sú að eini kostur Petrós Porosjenkós, forseta Úkraínu, væri að ganga til „samninga til að ná mönnum sínum lifandi úr klóm Rússa“.

Samkvæmt frásögn tímaritsins var allt önnur mynd dregin upp bak við luktar dyr á fundinum, en gert hefur verið opinberlega. Á kortum hefði verið sýnt hvar 20 herdeildir með minnst 500 manns hver og stórskotaliði biðu við landamæri Úkraínu. Komu að sögn fram sérstakar áhyggjur af nýrri víglínu í grennd við borgina Maríupol. Rússar gætu notað her sinn til að tengjast Krímskaga frá landi og festa sig þannig í sessi þar. Í raun hafi úkraínsk stjórnvöld misst stjórn á landamærum Úkraínu í austri.

Í byrjun ágúst var staðan allt önnur. Úkraínski herinn sótti á og virtist hafa króað uppreisnarmenn af í borgunum Dónetsk og Lúhansk. Í Kænugarði höfðu vaknað vonir um að sigur yrði fljótunninn. Úkraínskar sveitir voru króaðar af. Sjálfboðaliðasveitir stjórnarhersins eru umkringdar við bæinn Ilovaísk eftir harða bardaga. Hermt er að 100 manns hafi særst og mörg hundruð séu í haldi. Samkvæmt þýsku fréttastofunni dpa hyggst Porosjenkó skipta út forustu hersins vegna ófaranna.

 „Í stríði kallast það sigur

Sérfræðingar NATO líta svo á, að sögn Der Spiegel, að Rússar þurfi ekki að senda fleiri hermenn eða gögn til uppreisnarmanna. Útilokað sé að stjórnvöld í Kænugarði geti snúið taflinu sér í vil. „Porosjenkó er sagt fyrir verkum um hvar hvert hann geti farið með herlið sitt,“ segir heimildarmaður blaðsins. „Í stríði kallast það sigur.“

Atlantshafsbandalagið lýsti í liðinni viku yfir því að minnst þúsund rússneskir hermenn tækju þátt í átökunum í Úkraínu. Rússnesk stjórnvöld neita að hafa sent hermenn til Úkraínu til að hjálpa aðskilnaðarsinnum, en ýmsar vísbendingar hafa komið fram á undanförnum vikum um að rússneskir hermenn séu í landinu.

15 þúsund rússneskir hermenn til Úkraínu?

Fréttastofan AFP greindi frá því í gær að samkvæmt upplýsingum frá mannréttindasamtökum í Rússlandi hefðu 15 þúsund rússneskir hermenn verið sendir til Úkraínu á undanförnum tveimur mánuðum og líklega hefðu að minnsta kosti tvö hundruð fallið í átökunum. Valentína Melnikóva, yfirmaður Nefndar mæðra hermanna, helstu samtaka fjölskyldna hermanna í Rússlandi, sagði að líklega væru á milli sjö og átta þúsund rússneskir hermenn í Úkraínu þessa dagana. 

„Því miður er ég viss um að ég hafi rétt fyrir mér,“ sagði Melnikova við AFP. Útreikningar hennar eru byggðar á upplýsingum frá fjölskyldum hermanna, sem sendir hafa verið til æfinga skammt frá landamærunum og slitið hefur verið á samskipti við.

Önnur samtök segja að í það minnsta tvö hundruð hermenn hafi látið lífið í Úkraínu og vísa til upplýsinga frá ættingjum og hermönnum. „Yfirvöld ættu að segja hvers vegna hermenn falla á landi annars ríkis og hvers þau þegja yfir því,“ sagði Ella Poljakóva, stjórnandi Mæður hermanna í Pétursborg, sem situr í ráðgjafaráði Pútíns um mannréttindi, við AFP.

Samtökin eru fallin í ónáð rússneskra stjórnvalda og hafa verið stimpluð „erlendur útsendari“. Sú skilgreining  er beint úr orðaforða kalda stríðsins og er ætlað að rýra trúverðuleika samtakanna með því að gefa til kynna að erlend öfl stjórni þeim.

Enginn dánarstaður

Mannréttindasamtök segja að jarðneskum leifum hermanna fylgi skjöl þar sem tilgreint sé að skotsár eða sár af völdum sprengjubrota sé dánarorsök, en ekkert komu fram um hvar hermennirnir hafi fallið.

„Þessi skjöl eru ótrúleg. Í stað dánarstaðar er auður reitur,“ sagði Poljakova. „Við sáum svipaða mynd í Téténíu.“ 

Hún sagði að yfirvöld reyndu greinilega að halda afskiptum rússneskra hermanna leyndum og reynt væri að skilja eftir sem fæstar vísbendingar. „Allar fyrirskipanir eru munnlegar,“ sagði hún og bætti við að líklega væru óbreyttir hermenn undir þrýstingi frá yfirmönnum sínum og jafnvel þvingaðir til að undirrita yfirlýsingar um að ræða ekki hernaðarleyndarmál.

Segja mannréttindafrömuðir að greina megi ákveðið mynstur. Hermenn séu sendir á æfingar skammt frá landamærunum. Þar sé þeim sagt að skipta um föt og mála yfir auðkennisnúmer á skriðdrekum þeirra áður en þeir séu sendir til Úkraínu.

Minnst hálf milljón á vergangi

Flóttamannahjálp Sameinuðu Þjóðanna segir að rúmlega hálf milljón manna sé á vergangi vegna átakanna í Úkraínu. Segir stofnunin að minnst 260 þúsund manns hafi misst heimili sín í Úkraínu auk þess sem 260 þúsund manns hafi sótt um hæli í Rússlandi, samkvæmt yfirvöldum í Moskvu. Hinn raunverulega tala gæti þó verið mun hærri, eða allt að milljón manns.

„Ef ekki verður fljótt bundinn endi á þetta neyðarástand mun það ekki aðeins hafa hrikalegar afleiðingar fyrir þetta fólk, heldur gæti skapað óstöðugleika á öllu svæðinu,“ sagði Antonio Guterres, yfirmaður Flóttamannahjálparinnar, í gær. „Eftir lærdóminn frá Balkanskaga er erfitt að trúa því að ágreiningur af þessari stærðargráðu geti blossað upp á meginlandi Evrópu.“

Talið er að um 2600 manns hafi fallið í átökunum í Úkraínu.

Íbúar í Mariupol hjálpa stjórnarhernum með því að grafa skotgrafir …
Íbúar í Mariupol hjálpa stjórnarhernum með því að grafa skotgrafir og hlaða varnir úr sandpokum til að hefta sókn uppreisnarmanna. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert